Jóhann Möller hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri sjóðstýringarfyrirtækisins Stefnis hf. frá og með 1. ágúst. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stefni, sem er stærsta sjóðstýringarfyrirtæki landsins og í eigu Arion banka.
Jóhann hefur 20 ára reynslu af störfum á fjármálamarkaði og hefur verið starfandi hjá Stefni allt frá árinu 2006 við stýringu á innlendum hlutabréfasjóðum, auk þess sem hann hefur veitt hlutabréfateymi félagsins forstöðu síðastliðin þrjú ár.
Forveri hans í starfi, Jökull H. Úlfsson, óskaði eftir því að láta af störfum um miðjan júní, en þá hafði hann verið rúmt ár í starfi. Kristbjörg M. Kristinsdóttir, staðgengill framkvæmdastjóra, hefur sinnt starfinu síðan, en Jóhann mun sem áður segir taka við núna um mánaðamótin.
„Það er mikill heiður að fá tækifæri til að leiða þennan frábæra hóp starfsmanna Stefnis. Hjá Stefni starfar öflugur hópur sérfræðinga sem býr yfir viðamikilli þekkingu og reynslu á fjármálamörkuðum hér heima og erlendis. Markmið okkar er að vera áfram í fararbroddi í stýringu og uppbyggingu nýrra sjóða og sérhæfðra afurða, með vönduð vinnubrögð og hagsmuni viðskiptavina okkar að leiðarljósi,“ er haft eftir Jóhanni í tilkynningu Stefnis.
Stefnir var með um 250 milljarða króna í virkri sjóðastýringu í lok árs 2019, en fyrirtækið var stofnað árið 1996. Þar starfa um 20 sérfræðingar í fjórum teymum við stýringu á fjölbreyttu úrvali verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóða. Einnig stýrir félagið eignum nokkurra samlagshlutafélaga sem stofnuð hafa verið í kringum framtaksfjárfestingar.