Donald Trump Bandaríkjaforseti fór mikinn á samfélagsmiðlum í gær, eins og svo oft áður. Hann sagði allt benda til þess að forsetakosningarnar sem eru á dagskrá vestanhafs 3. nóvember myndu verða algjörlega marklausar vegna svindls í tengslum við póstkosningar og ritaði svo: „Þetta verður Bandaríkjunum til mikillar skammar. Frestum kosningunum þar til fólk getur kosið á réttan hátt, tryggilega og örugglega???“
Þetta var í fyrsta sinn sem Trump viðraði það opinberlega að mögulega ætti að fresta kosningunum, sem er raunar nokkuð sem hann hefur ekki minnsta vald til þess að gera, eins og rakið er í fréttaskýringu frá New York Times.
Bandaríkjaþing fer með vald til þess að ákveða hvenær kosningar fara fram og frá árinu 1845 hafa lög verið í gildi sem kveða á um að forsetakosningar á að halda þriðjudaginn eftir fyrsta mánudaginn í nóvembermánuði.
Til þess að kjördegi breytt myndi forsetinn þurfa að fá samþykki bæði öldungadeildar og fulltrúadeildar Bandaríkjaþings fyrir lagasetningu. Það er ekki möguleiki að demókratarnir sem stýra fulltrúadeildinni myndu nokkru sinni sætta sig við frestun kosninga og það varð svo strax ljóst í gær að hugmynd Trumps sló hreint ekki í gegn hjá samflokksfólki hans í Repúblikanaflokknum.
„Mér finnst það ekki sérlega góð hugmynd,“ sagði Lindsey Graham, bandamaður forsetans sem veitir dómsmálanefnd öldungadeildarinnar formennsku, við CNN. John Thune, sem er í forystusveit repúblikana í öldungadeildinni, sagði sama miðli að tillaga Trump væri líkleg til þess að ná athygli fjölmiðla, en að hann reiknaði ekki með að hún yrði lengi til umræðu.
Mitch McConnell, leiðtogi flokksins í öldungadeildinni var afdráttarlaus, í viðtali við sjónvarpsstöðina WNKY í Kentucky-ríki, um að honum hugnaðist ekki hugmynd Trumps. „Aldrei í sögu þessa lands, í gegnum stríð, kreppur og Þrælastríðið, höfum við ekki náð að halda alríkiskosningar á réttum tíma, og við munum finna leið til þess að gera það 3. nóvember næstkomandi,“ sagði McConnell.
Í sama streng tók Kevin McCarthy sem leiðir minnihluta repúblikana í fulltrúadeildinni, sem og repúblikanar á borð við Ted Cruz og Marco Rubio. Óþarfi er að fara mörgum orðum um hvað leiðtogar demókrata sögðu um hugmyndina, þeir sögðu hana fráleita og hreint út sagt hættulega.
Biden hafði spáð því að þessi hugmynd kæmi fram
Í umfjöllun Politico um hugmynd forsetans er rifjað upp að Joe Biden, andstæðingur Trumps í forsetakosningunum í haust, sagði í apríl að hann teldi að Trump myndi reyna að finna einhverja ástæðu til þess að stinga upp á því að kosningunum yrði frestað. Biden hefur reynst sannspár, en á þeim tíma sagði Trump að hann hefði aldrei látið sér detta til hugar að fresta kosningunum.
Þetta útspil Trumps hefur verið túlkað sem veikleikamerki af ýmsum. Fréttahaukurinn fyrrverandi Dan Rather sagði á Twitter að hann teldi að Trump væri dauðhræddur og sagði jafnframt að hann liti á hugmynd forsetans sem tilraun til þess að fá fjölmiðla til þess að fjalla um eitthvað annað en stöðu efnahagsmála í Bandaríkjunum í skugga kórónuveirufaraldursins.
Donald Trump is terrified.
— Dan Rather (@DanRather) July 30, 2020
Í gær, á svipuðum tíma og Trump setti tíst sitt í loftið, var greint frá því að landsframleiðsla Bandaríkjanna á öðrum ársfjórðungi hefði dregist meira saman en nokkru sinni frá því að byrjað var að taka saman ársfjórðungslegar hagtölur í Bandaríkjunum árið 1947, eða um 9,5 prósent, sem myndi samsvara 32,9 prósentum á ársgrundvelli.
Á sama tíma benda skoðanakannanir eindregið til þess að Joe Biden muni fara með sigur af hólmi í kosningunum 3. nóvember.