Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir þær aðgerðir sem nú er gripið til ekki koma á óvart. „Þessar tillögur eru algjörlega eins og búast má við miðað við þá stöðu sem er uppi. Þar sem við erum að sjá þessa miklu og hröðu fjölgun smita hér innanlands þá hefur það algjörlega legið ljóst fyrir af okkar hálfu að þá yrði gripið inn í með afgerandi hætti,“ sagði Katrín í viðtali við RÚV eftir að blaðamannafundi í Safnahúsinu lauk fyrr í dag.
Á blaðamannafundinum voru hertar sóttvarnarráðstafanir kynntar. Frá og með morgundeginum verður samkomubann miðað við 100 manns. Tveggja metra reglan verður nú skylda þar sem fólk kemur saman. Grímnotkun verður skylda á ákveðnum stöðum þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra regluna, til dæmis í almenningssamgöngum, innanlandsflugi og farþegaferjum.
Hún sagði að skoða þyrfti hvort að grípa þyrfti til rekari aðgerða. „Hér er verið að leggja til aðgerðir í tvær vikur meðan við erum í raun og veru að fá yfirsýn yfir þessa stöðu og ná tökum á aðstæðum sem ég held að sé númer eitt tvö og þrjú núna,“ sagði Katrín í viðtalinu.
Þá sagði hún það ótímabært að ræða um frekari uppsagnir í atvinnulífinu. Nú sé ekki verið að ráðast í umfangsmiklar lokanir eins og í fyrri aðstæðum. Heldur sé verið að horfa til þess að lögum okkur að aðstæðum og hugum að sóttvarnarráðstöfunum.
Spurð að því hvort of hratt hafi verið farið í afléttingar takmarkana og hvar mistökin í ferlinu lægi sagði Katrín við hafa farið varfærnislega í öllum tilslökunum . „Ég held að hér sé ekki hægt að tala um mistök. Heldur erum við stödd í heimsfaraldri sem við vitum ekki hvernig hegðar sér fyrir fram. Það eru allar þjóðir að ganga í gegnum þetta sama lærdómsferli og við sögðum það í upphafi þegar við léttum takmörkunum að við værum mjög meðvituð um það að það gæti þurft að grípa inn í með afgerandi hætti ef þetta blossaði upp aftur,“ sagði Katrín í viðtalinu.