„Þegar Sigmundur [Davíð Gunnlaugsson] ræðst gegn Black Lives Matter er hann því ekki að verja jafnan rétt fólks. Þvert á móti er hann að gera mannréttindabaráttu tortryggilega og boða rasíska, fóbíska og kvenfjandsamlega hugmyndafræði. Slík hugmyndafræði mun eingöngu geta af sér meiri sundrung og djúpstæðara óréttlæti.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í aðsendri grein á Vísi í dag sem skrifuð er af fjölmennum hópi fólks sem styður hreyfingu Black Lives Matter sem barist hefur m.a. gegn lögregluofbeldi og kúgun svartra í Bandaríkjunum.
Um er að ræða svargrein við heilsíðugrein Sigmundar Davíðs, formanns Miðflokksins, sem birt var í Morgunblaðinu um síðustu helgi.
Í grein stuðningshópsins segir að í grein Sigmundar megi finna ýmsar rangfærslur og hópurinn vilji svara „þeirri hugmyndafræði sem Sigmundur Davíð boðar, enda er framtíð íslensks samfélags, jafnréttis og lýðræðis í húfi“.
„Sigmundur er að verja valdakerfi undir formerkjum „vestrænnar siðmenningar“, sem hyglir körlum eins og honum á kostnað jaðarsetts fólks,“ stendur í greininni. „Hann er að verja harðlínukapítalisma sem beinlínis hvetur til arðráns ríks fólks á fátæku fólki. Hann er að verja þrönga og þvingaða sýn á fjölskylduform sem hefur verið notað sem átylla til kúgunar á fólki sem ekki fellur undir gamaldags skilgreiningar á kynvitund og kynhneigð. Hann er að verja stjórnkerfi, lögreglu og dómstóla sem rannsóknir og sagan sýna að þjóna því miður fyrst og fremst þeim sem njóta forréttinda í samfélaginu. Þetta birtist m.a. í viðhorfum til kynferðisbrotamála, mansals, móttöku flóttafólks og örorkubóta, viðhorfum sem endurspegla ekki viðurkenningu þess óréttlætis og misréttis sem jaðarsett fólk verður fyrir í samfélaginu.“
Bent er á að greinin sé skrifuð af „hvítum, ríkum, gagnkynhneigðum, valdamiklum, miðaldra karli sem hefur aldrei látið sig baráttu jaðarsettra hópa varða. Hann hefur aldrei upplifað fordóma eða félagslegt mótlæti vegna jaðarsetningar og aldrei þurft að glíma við ótta vegna kerfislægrar hættu á áreitni eða ofbeldi. Greinin er óreiðukenndur samtíningur rakalausra sögusagna sem auðvelt er að afskrifa sem þvælu, af því að í barnslægri einlægni trúum við því flest að skrif á borð við þessi dæmi sig sjálf“.
Hópurinn segir löngu tímabært að uppræta „stofnanabundinn og skelfilegan rasisma“ sem hefur áhrif á daglegt líf alls svarts og brúns fólks í heiminum. „Það er okkar einlæga von að kjósendur láti Sigmund Davíð ekki slá ryki í augu sér með hatursfullum skrifum sem hafa það markmið að sundra fólki sem berst gegn kúgun og ofbeldi og safna á sama tíma atkvæðum fyrir sjálfan sig. Við heitum því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að berjast gegn öllum þeim kerfum sem kúga, arðræna og jaðarsetja fólk og standa sameinuð vörð um mannréttindi hvers annars. Síðast en ekki síst munum við aldrei sitja þegjandi undir uppgangi fasískra stjórnmálaafla.“
Greinina má lesa í heild hér.