Einn sjúklingur hefur verið lagður inn á Landspítala með COVID-19, en Már Kristjánsson yfirlæknir á smitsjúkdómadeild spítalans staðfesti þetta við RÚV í morgun. Þetta er í fyrsta sinn síðan 13. maí sem einhver liggur á sjúkrahúsi hér á landi veikur af völdum kórónuveirunnar.
Fram kemur í frétt RÚV að sjúklingurinn sé á legudeild og að viðbúnaðarstig á spítalanum verði nú hækkað úr viðbúnaðarstigi yfir á hættustig.
Ríkisstjórnin mun halda blaðamannafund kl. 11 þar sem búast má við því að sóttvarnaráðstafanir verði hertar, en rætt hefur verið um að tveggja metra reglan verði tekin upp að nýju og fjöldatakmörk samkomubanns hert.
Í tilkynningu frá stjórnvöldum um fundinn eru fjölmiðlamenn beðnir um að „virða fjarlægðarmörk bæði á meðan á fundinum stendur og að honum loknum þegar viðtöl fara fram.“