Hertar sóttvarnareglur hafa tekið gildi í samfélaginu til tveggja vikna, vegna hópsmits á suðvesturhorninu sem virðist teygja anga sína víða, miðað við það að níu af þeim ellefu innanlandssmitum sem greindust á fimmtudag voru hjá einstaklingum sem ekki voru í sóttkví. Hjúkrunar- og dvalarheimili landsins, þar sem margir af þeim sem sem viðkvæmastir eru fyrir áhrifum kórónuveirunnar búa, hafa gripið til aukinna varúðarráðstafana.
Gísli Páll Pálsson er forstjóri Grundarheimilanna, sem reka auk Grundar dvalarheimilið Ás í Hveragerði og Mörkina í Reykjavík. Hann ræddi við Kjarnann í gær og sagði að fyrr í vikunni hefði verið skerpt á reglum um heimsóknir á Grundarheimilunum og unnið yrði í samræmi við leiðbeiningar frá embætti landlæknis og sóttvarnalækni í framhaldinu. Um 400 íbúar eru á heimilunum þremur og starfsmennirnir eru alls um 700 talsins.
Starfsfólk beðið um að gæta varúðar
Starfsfólk hjúkrunarheimila, rétt eins og annað heilbrigðisstarfsfólk sem vinnur í návígi við einstaklinga sem eru viðkvæmir fyrir veirunni, leggur mikið á sig til þess að forða því eins og kostur er að smit berist inn á vinnustaðinn. Það hefur þegar verið beðið um að gæta sérstakrar varúðar á ný, eftir að hafa ef til vill getað andað rólegar fyrr í sumar, þegar veiran virtist víðfjarri.
Þetta kom meðal annars fram í máli Ölmu Möller landlæknis á upplýsingafundi í gær, en hún sagði að ákveðið hefði verið að reyna að sjá til þess starfsfólk hjúkrunarheimila færi í tveggja vikna sóttkví eftir heimkomu erlendis frá og að starfsmenn og aðstandendur þyrfti auk þess að sýna ítrustu smitgát.
„Það gerði allt okkar starfsfólk, ekki bara Grundarheimilanna heldur hjúkrunarheimila landsins, það setti sig í ákveðinn gír þarna í mars, apríl og maí, sinnti sinni vinnu og gerði lítið annað. Við erum afskaplega þakklát fyrir það. Ég efast ekkert um að það sama verði uppi á teningnum nú,“ segir Gísli og bætir við að í ljós eigi eftir að koma hversu langvinnt þetta tímabil verður nú.
Gísli segir að starfsfólk hjúkrunarheimila hafi lagt mikið á sig til þess að haga einkalífi sínu með ákveðnum hætti utan vinnu á meðan veiran var á flugi hér á vormánuðum, þrátt fyrir að ekki hafi verið kvöð eða skylda á fólki um að haga sér á ákveðinn máta.
„Ég held að fólk finni til siðferðilegrar skyldu. En það er ekkert verið að tala um að starfsfólk sé í sóttkví og hitti engan, en fólk er kannski ekki að fara á djammið og kyssa og knúsa alla sem þeir hitta á Laugaveginum. Það er almenn skynsemi, frekar, sem málið snýst um,“ segir Gísli.
Hann segir, og undirstrikar að með því sé hann ekki að gera lítið úr þeim aðstæðum sem nú eru uppi, að fólk sé miklu undirbúnara núna.
„Það var meira stress fannst mér, í mars og apríl, þegar fólk vissi ekkert hvað þetta var eiginlega,“ segir Gísli.