„Það virðist vera komin ný bylgja hjá okkur eins og í öðrum löndum. Við þurfum að standa saman í því að hlýða þremenningunum með þrennunni; fjarlægðarmörk, handþvottur og sprittun. Þetta er óendanlega mikilvægt,“ sagði Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu á upplýsingafundi almannavarna í dag.
Hann sagði að fólk þyrfti að halda ró sinni og sýna skynsemi á meðan unnið væri að því að takast á við þá stöðu sem komin er upp, en fimmtíu virk smit eru nú í landinu og tengjast flest þeirra sömu hópsýkingunni sem bundin er við suðvesturhorn landsins.
Óskar sagði að fólk hefði í auknum mæli verið að hringja inn til heilsugæslunnar og segjast vera með einhverskonar einkenni, lítil eða mikil, eftir að umfjöllun fór af stað um að veiran væri að láta á sér kræla í íslensku samfélagi á ný.
„Íslensk erfðagreining sinnir skimun fyrir þá sem frískir eru, en við erum að sinna þeim sem veikir eru,“ sagði Óskar og bætti við að það yrði unnið fram eftir við sýnatöku hjá heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu í dag og að áfram yrði hægt að fara í sýnatöku yfir helgina.
Grímunotkun tekin upp á heilsugæslustöðvum
Forstjórinn sagði að í dag hefði verið tekið upp breytt verklag á heilsugæslustöðvunum, tveggja metra reglan væri að sjálfsögðu komin í gildi og einnig væri því nú beint til fólks að setja upp grímur við komuna þangað.
Samskiptin á milli heilbrigðisstarfsfólks og notenda heilsugæslunnar yrðu því ögn öðruvísi núna, þegar við ætluðum að koma í veg fyrir að sýkingin næði sér á strik í samfélaginu.
Hvernig skal hafa samband?
Hann fór yfir það hvernig fólk ætti að hafa samband við heilsugæsluna til þess að óska eftir sýnatöku: Á dagvinnutíma á að hringja í heilsugæsluna eða hafa samband við netspjallið á vefnum heilsuvera.is, en utan dagvinnutíma og þá um helgina á að hafa samband við Læknavaktina í síma 1700.
Óskar sagði að það hefði verið „töluvert at“ í símanum og á netspjallinu í gær og í dag og biðlaði hann til fólks um að láta ákveðin erindi, til dæmis „vottorðaskrif sem ekki liggur á“ bíða á meðan.
„Við þurfum að forgangsraða,“ sagði Óskar.
Ekki biðja um að fá að flýta seinni skimun
Eitthvað hefur borið á því, að sögn Óskars, að þeir sem eru að fara í seinni skimun eftir að hafa áður farið í skimun á landamærunum eftir komuna til landsins hefðu samband í von um að reyna að fá seinni skimuninni flýtt, en allavega fjórir dagar eiga að líða frá fyrri skimun til þeirrar seinni.
Bað hann fólk um að virða það og reyna ekki að fá seinni skimun sinni flýtt.
Fólk með einkenni mun geta ekið í skimun
Tjöld til þess að framkvæma skimun á þeim sem eru með einkenni verða sett upp á bílastæðinu fyrir utan Orkuhúsið við Suðurlandsbraut.
Inn í þau mun fólk með einkenni geta ekið á bílum sínum, en Óskar minntist á að erfitt hefði reynst að fá leigð tjöld fyrir helgina, þar sem mörg hefðu verið tekin frá, væntanlega vegna viðburða sem halda átti um helgina.
En ljóst er að vegna hertra sóttvarnaraðgerða verður lítið um samkomur og mannfagnaði og tjöld fengust laus til þess að hægt væri að nýta þau til skimana.