Alls hafa Íslendingar nýtt rétt rúmlega 100 milljónir af ferðagjöf stjórnvalda til að kaupa sér gistingu samkvæmt upplýsingum um ferðagjöfina sem skoða má á mælaborði ferðaþjónustunnar. Sú upphæð er um þriðjungur af heildarupphæðinni sem greidd hefur verið út í formi ferðagjafar en alls hafa Íslendingar greitt rétt tæpar 311 milljónir fyrir vöru og þjónustu með ferðagjöfinni. Næst stærsti flokkurinn, á eftir gistingu, er afþreying en um 92 milljónir hafa verið nýttar í afþreyingartengda ferðaþjónustu.
Það svæði sem tekið hefur við mestu er Höfuðborgarsvæðið, alls 74 milljónum. Nú er kominn nýr flokkur í svæðaskiptinguna sem kallast einfaldlega „Allt landið“ og er sá flokkur næststærstur, til fyrirtækja í þeim flokki hafa runnið 58 milljónir. Þar á eftir kemur Suðurland með 46 milljónir. Langsamlega minnstur er flokkur fyrirtækja á hálendinu en til þeirra hefur runnið rúmlega hálf milljón króna. Næst fyrir ofan hálendið koma Vestfirðir en fyrirtæki á Vestfjörðum hafa tekið á móti tæplega ellefu milljónum króna.
Milljónir í skyndibita
Af einstökum fyrirtækjum sem tekið hafa á móti stærstum upphæðum er Icelandair Hotels í efsta sæti. Þangað hafa runnið tæpar 14,5 milljónir króna. Næst á eftir kemur Flyover Iceland sem hefur tekið á móti tæpum 12,9 milljónum króna og í þriðja sæti er Íslandshótel hf. sem hefur tekið á móti tæpum 12,8 milljónum króna.
Íslendingar hafa verið duglegir að innleysa ferðagjafir sínar á skyndibitastöðum og hafa verið fluttar af því fréttir. Meðal þeirra skyndibitafyrirtækja sem tekið hafa á móti flestum ferðagjöfum eru meðal annars Domino’s með 4,7 milljónir, KFC með 3,9 milljónir, Hlöllabátar með 3,1 milljón og Grillhúsið með 2,7 milljónir.
Gert ráð fyrir að úrræðið kosti 1,5 milljarð
Á vef stjórnarráðsins segir um ferðagjöfina: „Ferðagjöfin er hluti af aðgerðapakka stjórnvalda og liður í því að styðja við bakið á íslenskri ferðaþjónustu í kjölfar COVID-19 heimsfaraldursins. Þannig er greinin efld samhliða því að landsmenn eru hvattir til að eiga góðar stundir á ferðalagi víðs vegar um landið.“
Allir sem hafa lögheimili á Íslandi, fæddir árið 2002, eða fyrr, geta fengið ferðagjöfina. Áætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna ferðagjafarinnar er um 1.500 milljónir króna en nú er búið að nýta rúman fimmtung af þeirri fjárhæð. Ferðagjöfina þarf að nýta fyrir árslok 2020.
Nánari upplýsingar um notkun ferðagjafarinnar má nálgast á Mælaborði ferðaþjónustunnar.