Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra, áformar að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd sem fela í sér að kynningarferli áformaðra friðlýsinga verði stytt. Jafnframt er áformað að tími sá sem ætlaður er til að kynna drög að friðlýsingarskilmálum verði styttur frá því sem hann er í dag.
Guðmundur Ingi kynnti þessi áform í samráðsgátt stjórnvalda í síðustu viku og umsagnarfrestur er til 16. ágúst.
Í umfjöllun um áformin þar segir að þar sem nokkur reynsla sé komin á framkvæmd friðlýsinga í samræmi við lög um náttúruvernd frá árinu 2013, sé ætlunin að leggja til að kynningarferli áformaðra friðlýsinga, sem ekki eru á náttúruminjaskrá, verði stytt.
Einnig er áformað að ítrekuð verði sú skylda að kortleggja óbyggð víðerni og að bann við losun úrgangs verði rýmkað.
Ein umsögn hefur borist um áformin, frá Reykjavíkurborg. Þar er tekið undir að málsmeðferðartími friðlýsinga sé óþarflega langur, að til bóta sé að færa heimildir til undanþágu á ákvæðum friðlýsingar til Umhverfisstofnunar, að nauðsynlegt sé að kortleggja óbyggð víðerni til að átta sig betur á umfangi þeirra og að sjálfsagt sé að rýmka bann við losun úrgangs þannig að það nái yfir náttúruna almennt en ekki einungis um áningarstaði og tjaldstæði.