Átta ný innanlandssmit af COVID-19 veirunni greindust í gær. Alls var 291 sýni greint á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og voru átta þeirra jákvæð. Af þeim 914 sýnum sem Íslensk erfðagreining greindi í gær reyndist ekkert jákvætt en Íslensk erfðagreining hefur verið að mæla fyrir smiti í samfélaginu frá 29. júlí.
2.035 sýni voru tekin á landamærum í gær. Beðið er eftir mótefnamælingu í tveimur þeirra. Frá 15. júní þegar sýnataka hófst hafa 68.203 sýni verið tekin við landamæri.
Alls eru nú 80 í einangrun samkvæmt upplýsingum á covid.is, og fjölgar um átta milli daga. Í sóttkví eru nú 670 einstaklingar en þeir voru 101 færri í gær. Einn einstaklingur liggur á legudeild Landspítalans vegna COVID-19.
Kári sagði við RÚV að góðu fréttirnar væru þær að skimun á landamærum virtist vera að virka. „Það eru miklu verri fréttir að það skuli vera á ferð um samfélagið veira sem er að breiðast út og að við vitum ekki hverjir tengja þessa aðila sem hafa sýkst.“
Boðað hefur verið til upplýsingafundar Almannavarna klukkan 14 í dag þar sem þau Alma D. Möller, landlæknir, Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, fara yfir stöðu mála varðandi framgang kórónuveirufaraldursins hér á landi.