„Við minnum bara aftur á þessar einstaklingsbundnu sóttvarnir; handþvottinn, sprittunina og fjarlægðina,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra á upplýsingafundi dagsins. „Við höfum fengið ábendingar um það að rýmisgreind fólks sé mismunandi,“ sagði hann og breiddi út faðminn til að sýna fram á hvað felist í raun og veru í tveggja metra reglunni. „Þetta hérna eru tæplega tveir metrar. Það er ágætt að hafa það til viðmiðunar og reyna að halda fólki í hæfilegri fjarlægð.
Á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag rifjaði Alma Möller landlæknir upp smitleiðir veirunnar. Hún sagði þörf á því, ekki síst í ljósi þess að flestir sem hafa smitast síðustu daga eru fólk undir þrítugu og hún óttaðist að skilaboð um sóttvarnir væru ekki að ná til unga fólksins.
„Veiran berst fyrst og fremst með dropasmiti,“ sagði Alma. „Frá öndunarvegi sýkts einstaklings í litlum dropum og þeir geta svo borist í næsta mann ef hann er nálægt.“ Þess vegna væri tveggja metra reglan, sem Víðir notaði látbragð til að sýna, svo mikilvæg. Alma minnti ennfremur á að veiran gæti borist á fleti sem einhverjir aðrir svo snerta og beri þeir hendur sínar að andliti geta þeir sýkst. Talið er að veiran geti lifað í 2-3 daga á sléttum flötum.
Að þessu sögðu væri aðalatriðið að þvo sér oft, varast að snerta á sér andlitið og viðhalda tveggja metra reglunni. „Við skulum bíða með að takast í hendur og faðma bara okkar allra nánustu.“
Þá skal ekki hósta út í loftið heldur í pappír eða olnbogabót. Alma benti á að allar þessar aðgerðir virkuðu einnig vel gegn mörgum öðrum sýkingum.
Þar sem ungt fólk er að smitast meira nú en þeir sem eldri eru ætla almannavarnir að skerpa á sínum skilaboðum til þeirra, m.a. á samfélagsmiðlum. Einnig beindi Alma því til foreldra að fræða sitt unga fólk. Alma var spurð á fundinum hvort að ungu fólki væri kannski alveg sama hvort að það sýktist og sagðist henni þykja það afar ólíklegt, „því hver vill verða fyrir því til dæmis að smita einhvern sér náinn.“
Þurfum að læra að lifa með veirunni
„Það er sem stendur óvissa um hvaða stefnu faraldurinn muni taka,“ sagði Alma, „hvort að smitum muni fjölga eða hvort okkur tekst öllum í sameiningu að ná tökum á smitunum. Við teljum að við þurfum að læra að lifa með veirunni til lengri tíma og að það sé óhjákvæmilegt að alltaf verði einhver smit í gangi. En hins vegar myndum við vilja hafa betri stjórn á aðstæðum akkúrat núna og þess vegna erum við í öllum þessum aðgerðum.“
Alma ítrekaði að við værum í miklu betri stöðu núna en í vetur til að sinna þeim sem veikjast. „Covid-göngudeildin heldur vel utan um alla og ef að fólk þarf innlögn þá búa læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk yfir nauðsynlegri þekkingu, reynslu, lyfjum og tækjabúnaði.“