Stjórn Festi hf. hefur ákveðið að arðgreiðsla vegna ársins 2019 fari fram þann 2. september 2020. Frá þessu er greint í afkomutilkynningu sem félagið sendi frá sér í gær vegna uppgjörs annars ársfjórðungs.
Í apríl ákvað stjórn Festi, sem rekur N1, Krónuna, Elko, Bakkann vöruhótel og Íslenska orkumiðlum, að fresta 657 milljón króna arðgreiðslu sem til stóð að greiða hluthöfum félagsins vegna frammistöðu síðasta árs þann dag.
Stjórn Festis var hins vegar veitt heimild til að meta og taka ákvörðun um hvort rétt sé að fresta greiðslu arðsins eða fella hana niður, með hliðsjón af sjóðsstöðu og aðstæðum í rekstri samstæðu félagsins, til allt að 23. september 2020.
Nú hefur stjórnin ákveðið að greiða út arðinn. Festi hagnaðist um 2,8 milljarða króna á síðasta ári.
Reksturinn gekk vel og myndarlegur hagnaður
Rekstur Festis gekk vel á síðasta ársfjórðungi. Alls var EBITDA-hagnaður félagsins (hagnaður fyrir skatta, fjármagnsgjöld og afskriftir) um 1,7 milljarða króna frá byrjun apríl og út júnímánuð, en hluta þess tíma voru í gildi strangar samkomutakmarkanir vegna COVID-19 veirunnar. Hreinn hagnaður samstæðunnar var 525,4 milljónir króna á ársfjórðungnum, sem var undir væntingum samkvæmt afkomutilkynningunni.
Í lok ársfjórðungsins var slakað á þessum takmörkunum sem hafði jákvæð áhrif á rekstur N1.
Eiginfjárhlutfall Festa var 35,5 prósent í lok júní og markaðsvirði félagsins var 43,4 milljarðar króna á sama tíma. Festi gerir ráð fyrir óbreyttri spá um rekstrarhagnað fyrir árið 2020, og áætlar að hann verði á bilinu 7,1 til 7,7 milljarðar króna.
Nýtti hlutabótaleiðina en ætlaði að endurgreiða
Festi nýtti hlutabótaleiðina svokölluðu fyrir starfsmenn dótturfélaganna N1 og Elko. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd hennar sagði að 156 starfsmenn N1 hefðu verið í minnkuðu starfshlutfalli í mars og apríl og greiðslur til þeirra hafi numið rúmum 29 milljónum króna.
Í skýrslunni kom hins vegar ekkert fram um hversu margir starfsmenn Elko voru á hlutabótaleiðinni. Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festar sagði þó við mbl.is í maí að heildargreiðslur til starfsmanna fyrirtækja Festar vegna hlutabótaleiðarinnar hefðu verið um 45 milljónir króna.
Fyrirtækið er í hópi stöndugra stórfyrirtækja sem stjórnvöld gagnrýndu skyndilega og harðlega fyrir notkun á hlutabótaleiðinni og hefur gefið út að það myndi endurgreiða féð í ríkissjóð, eftir að hafa orðið fyrir mikilli gagnrýni fyrir að nýta sér úrræðið.
Ekkert er fjallað um nýtingu Festa á hlutabótaleiðinni í árshlutauppgjörinu.
Orðin rafmagnssali
Festi keypti þann 85 prósent hlut sem það átti ekki í fyrirtækinu Íslenskri Orkumiðlun, sem stundar heildsöluviðskipti með rafmagn, 1. mars síðastliðinn á 723 milljónir króna. Greitt var fyrir með 316,1 milljónum króna í reiðufé og 406,4 milljónum króna í nýju hlutafé í Festum.
Það félag var stofnað í byrjun árs 2017 af Magnúsi Júlíussyni, framkvæmdastjóra þess, og Bjarna Ármannssyni, og hóf raforkusölu 1. júlí 2017.Viðskiptavinir í sjávarútvegi eru stærstu viðskiptavinir félagsins.
Auk Magnúsar og Bjarna voru stærstu hluthafar fyrir söluna til Festis Ísfélag Vestmannaeyja og Kaupfélag Skagfirðinga, sem bæði eru umsvifamikil í sjávarútvegi og eru auk þess bæði á meðal stærstu eigenda Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins.
Viðskiptin hafa verið gerð tortryggileg vegna persónulegra tengsla Eggerts Kristóferssonar, forstjóra Festa, og Þórðar Más Jóhannessonar, stjórnarformanns félagsins, við Bjarna Ármannsson.
Í afkomutilkynningunni segir að heildarvirði Íslenskrar orkumiðlunar sé 850 milljónir króna að meðtöldu handbæru fé félagins sem var 230 milljónir króna um mitt þetta ár. Af heildarvirðinu er 601 milljón króna viðskiptavild, og þar af leiðandi óefnisleg eign. Áætlaður hagnaður Íslenskrar orkumiðlunar á árinu 2020 er 120 milljónir króna samkvæmt því sem fram kemur í afkomutilkynningunni.