Norræna flutninigamannasambandið (NTF) fordæmir framkomu Icelandair í garð Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) í nýlegum kjarasamningaviðræðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá NTF sem sambandið sendi frá sér í gær.
Icelandair sleit samningaviðræðum við FFÍ og sagði upp öllum flugfreyjum sínum um miðjan júlí. Í kjölfarið áttu flugmenn að taka að sér störf öryggisliða um borð í vélum Icelandair og félagið ætlaði að leita eftir samningum við annan samningsaðila. Nokkrum dögum síðar var nýr kjarasamningur milli Icelandair og FFÍ undirritaður.
Í tilkynningunni lýsir NTF yfir miklum vonbrigðum með þessa ákvörðun Icelandair. Samtökin segja það einnig áhyggjuefni að slíkum brögðum sé beitt. Því miður hafi samskonar aðgerðum verið beitt í kjaraviðræðum annars flugfélags og nú, mörgum árum síðar, er andinn í starfsmannahópi þess flugfélags enn ekki samur að því er fram kemur í tilkynningunni.
Kórónuveirufaraldurinn hefur leikið fyrirtæki í hinum ýmsu geirum grátt og ekki síst fyrirtæki sem sinna fólksflutningum. Að mati NTF er það ekki lausn á þeim rekstrarvanda sem fyrirtækin standa frammi fyrir að þrýsta á stéttarfélög með hótunum sem ógni heildarsamningum.
Líkt og áður segir fordæma samtökin þessa tilhögun en þau hvetja jafnframt Icelandair til þess að reyna að hlúa að vinnuumhverfinu til þess að efla traust milli allra þeirra sem hlut eiga að máli.