Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir telur að ástæðan fyrir því að enginn af þeim 97 sem nú eru með virkt smit hér á landi sé alvarlega veikur skýrist af aldurssamsetningu hópsins. Flestir hinna sýktu eru ungt fólk.
Þetta sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag. Fjögur ný innlandssmit voru greind í gær. 97 eru með COVID-19 og í einangrun. Enginn liggur á sjúkrahúsi vegna sjúkdómsins. Raðgreining Íslenskrar erfðagreiningar hefur sýnt að enn er það veira af sama afbrigði sem er að breiðast út og hefur nú greinst hjá fólki í öllum landshlutum. Segir hann okkur engu nær að komast að uppruna þeirrar veiru.
Af þeim fjórum sem greindust í gær voru þrír í sóttkví.
Frá 15. júní hafa 94 virk smit greinst innanlands. Frá þeim tíma hafa 115 þúsund farþegar komið til landsins og sýni verið tekin frá um 74 þúsund þeirra.
Íslensk erfðagreining hefur skimað 4.400 manns síðustu daga og greint fimm með virkt smit. „Við erum að sjá svipaðan fjölda þó að sveiflur séu milli daga, en ekki mikla aukningu í nýjum tilfellum hér innanlands,“ sagði Þórólfur á fundinum. Benti hann á að skimun ÍE gæfi vísbendingu um að smitið væri ekki mjög útbreitt í samfélaginu.
Af þessum sökum telur Þórólfur ekki ástæðu til að herða á samfélagslegum aðgerðum sem nú eru í gildi. Nokkurn tími mun líða þar til við förum að sjá fyrir endann á þessu hópsmiti, „eða samfélagssmiti ef menn vilja kalla það það.“
Þórólfur sendi heilbrigðisráðherra minnisblað í morgun þar sem hann leggur til að haldið verði áfram að skima á landamærum eins og gert hefur verið til þessa. Að ekki verði slakað á því. Segir hann skimunina hafa sýnt gagnsemi sína í því að lágmarka áhættuna á því að fá veiruna hingað til lands.
Landspítalinn er hins vegar kominn yfir afkastagetu sína í sýnatökum. Sagði Þórólfur að Íslensk erfðagreining hefði boðist til að koma þar til aðstoðar þar til afkastagetan eykst á Landspítala í haust.
Í minnisblaðinu lagði Þórólfur einnig til að áfram yrðu tekin sýni hér innanlands. „Minnisblaðið er nú hjá ráðherra og endanleg ákvörðun liggur hjá stjórnvöldum.“
Þá hvatti Þórólfur alla til að viðhafa einstaklingsbundnar sýkingavarnir og virða tveggja metra regluna. „Þannig mun okkur takast að koma okkur út úr þessu COVID-fári.“