Nú er ekki tíminn til að skera niður í ríkisrekstri að mati Drífu Snædal, Forseta ASÍ, enda geti það dýpkað kreppuna með alvarlegum og langvinnum afleiðingum fyrir einstaklinga og samfélagið allt að hennar mati. Þetta kemur fram í nýjum pistli sem hún sendi frá sér í dag.
Í pistlinum bendir hún á að staðan á vinnumarkaði sé slæm, atvinnuleysi nálægt tíu prósentum og óvissa mikil. „Þarna skiptir öllu að fólk hafi greiðan aðgang að þeim úrræðum sem í boði eru, lögð verði áhersla á fjölgun starfa hjá hinu opinbera og í nýsköpun og þeim sem eru atvinnulaus gefin tækifæri á endurmenntun. Síðast en ekki síst verður að hækka atvinnuleysisbætur strax enda hafa þær ekki haldið í við lágmarkslaun,“ segir Drífa í pistli sínum.
Kjarasamningar mögulega endurskoðaðir í september
Þá bendir hún á að möguleiki sé á endurskoðun kjarasamninga sem undirritaðir voru í apríl 2019 verði endurskoðaðir nú í september. Forsendur til grundvallar kjarasamningunum eru þrjár; að kaupmáttur aukist, vextir lækki og og að stjórnvöld standi við þau loforð sem gefin voru í tengslum við samningana.
Forsendunefnd sem skipuð er fulltrúum frá ASÍ og SA muni koma saman til að úrskurða hvort forsendur hafi staðist. Drífa bendir á að kaupmáttur hefur aukist, vextir lækkað „en út af standa fjölmörg þeirra verkefna sem stjórnvöld gáfu loforð um.“
Aðstæður á vinnumarkaði „sérlega krefjandi“
Hún kallar eftir því að stjórnvöld komi að borðinu þar sem þau hafi ekki staðið að fullu við sinn hluta samkomulagsins og þar sem að aðstæður á vinnumarkaði séu „sérlega krefjandi nú um stundir og verða það áfram.“
Hún segir að aðgerðir Icelandair í kjaraviðræðum félagsins við Flugfreyjufélag Íslands muni lita þau verkefni sem fram undan eru. „Það er því ólíðandi að Samtök atvinnulífsins skuli í sumar hafa gengið gegn reglum á vinnumarkaði með því að styðja Icelandair í fordæmalausum aðgerðum gegn flugfreyjum og þjónum. Það var örlagaríkur föstudagur í júlí þegar stjórnendur Icelandair lýstu því yfir að þeir ætluðu að sniðganga viðsemjendur og semja við aðra um kaup og kjör.“
„Sumargjöf“ Icelandair elti verkalýðshreyfinguna inn í haustið
Sú aðferð að atvinnurekendur reyni að búa til sín eigin stéttarfélög og gangi til samninga við þau sé þekkt úti í heimi að sögn Drífu sem bendir á að það sé ekki í hendi atvinnurekenda að fá að velja og hafna við hverja þeir semja. „Það verður ekki látið viðgangast á íslenskum vinnumarkaði og þó að flugfreyjur hafi gengið frá samningum þá mun þessi „sumargjöf“ elta okkur inn í haustið og lita þau verkefni sem framundan eru. Samningsréttur vinnandi fólks verður varinn!“
Undir lok pistilsins segir Drífa að verkalýðshreyfingin ætlist til þess að samfélagslegir hagsmunir ráði för, „ekki hagsmunir hinna fáu, ekki hagsmunir peningaaflanna.“ Almannahagur þurfi að vera hornsteinn allra ákvarðana ef ætlunin er að koma standandi út úr þeirri kreppu sem almenningur standi frammi fyrir. Hún segir verkefni vetrarins vera mörg en að verkalýðshreyfingin sé sterk og tilbúin í það sem koma skal.