Í gær greindust sautján ný innanlandssmit hér á landi. Í heild eru 109 með virk smit. Raðgreiningar sýna að um sömu gerð veiru er að ræða og tengist öðru hópsmitinu sem fjallað hefur verið um síðustu daga. „Við erum ekki að sjá fleiri gerðir af veirunni. Og þessi gerð hefur greinilega dreift sér víða um samfélagið,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag.
Smit hafa greinst í öllum landshlutum. Á Landspítalanum liggur einn einstaklingur með COVID-19. Sá er á fertugsaldri. Hann er alvarlega veikur, er á gjörgæsludeild og í öndunarvél. Til skoðunar er að leggja fleiri sjúklinga inn.
Þórólfur sagði snarpa fjölgun tilfella í gær augljóslega áhyggjuefni. „Þessi faraldur sem nú er í gangi er í einhverjum vexti.“ Sagði hann greinilegt að tilfellum væri að fjölga og að þau væru að greinast á víð og dreif um landið. Sex einstaklingar sem voru í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina hafa greinst með sjúkdóminn og sagði Þórólfur líklegt að þeim ætti eftir að fjölga. „Þetta sýnir þessa áhættu sem við höfum verið að tala um þegar fólk safnast saman.“
Ekki sér fyrir endann á þeirri einstöku hópsýkingu. Fjölmargir hafa þurft að fara í sóttkví vegna hennar. Íslensk erfðagreining er að hefja skimun í Eyjum.
„Við erum líka að sjá aukningu á veikindum,“ sagði Þórólfur. „Við höfum verið að ræða hvort að þessi veira sé að veikjast – en ég held að það séu ekki merki um það. Við erum núna að fara að sjá alvarleg veikindi eins og við gerðum síðasta vetur.“ Sagðist hann hafa spurst fyrir erlendis og að enginn teldi að þessi veira væri eitthvað veikari núna en áður. Það hafi því verið „veik von“ að veiran væri að veikjast.
Þórólfur sagði að þessi reynsla sýni að við þurfum að skerpa á smitvörnum og virða 2 metra regluna. „Það eru vanhöld á því að menn hafi farið eftir því til fulls“.
Hann sagði ljóst að núna væri faraldurinn í vexti. „Því er það til alvarlegrar skoðunar af minni hálfu að herða samkomutakmarkanir frá því sem nú er. Ef að það verður gert munu þær takmarkanir standa skemur en fyrri takmarkanir – þó að það sé alls ekki hægt að fullyrða neitt um það.“
Það mikilvægasta sem við getum gert núna, að sögn Þórólfs, er að standa saman og reyna að bæta okkur og fara eftir þeim reglum sem eru í gangi. Virða þarf 100 metra fjöldatakmörk, 2 metra regluna og sérstaklega minnti hann á að ef fólk finnur fyrir einkennum á það að halda sig til hlés. „Því miður höfum við alltof mörg dæmi um að fólk sé ekki að fara eftir þessu og skilja eftir sig töluverða slóð.“
Þórólfur sagði ákveðin vonbrigði að standa í þessu sporum í dag. „En horfum til reynslunnar – í vetur voru aðgerðir árangursríkar. Engin ástæða til að halda annað en að við getum náð böndum á þennan faraldur.
Ég hef fulla trú á því að okkur muni takast það ef við stöndum saman og förum eftir reglum og allir þekkja en virðist vera dálítið erfitt að fara eftir.“
Hann sagði baráttuna verða öðruvísi nú en í vetur. Hún verði jafnvel lengri. Ein tegund veirunnar sé að breiða úr sér víða. Þá séu margir þeirra sem greinst hafa núna mjög smitandi. Næstu dagar munu skera úr um það hvort að færa þurfi fjöldatakmarkanir aftur niður í 50 eða 20. Það myndi hafa gríðarleg áhrif á marga.