Hraðatakmarkanir sem settar hafa verið upp á höfuðborgarsvæðinu vegna nýs malbiks verða víða teknar úr gildi í dag. Þetta segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, í samtali við Kjarnann. Í frétt RÚV frá því í gærkvöldi var sagt frá því að hraðatakmarkanir á nýmalbikuðum vegum séu endurtekið virtar að vettugi. Hraðatakmarkanirnar voru tilkomnar vegna þess að nýtt malbik á það til að vera hált.
G. Pétur segir erfitt að útskýra hvers vegna nýtt malbik geti verið hált. Hann segir að þegar verið sé að leggja nýtt malbik sé það, eðli málsins samkvæmt, mýkra. Það stafar af því að það er meira asfalt í malbikinu í upphafi. Spurður að því hvort allt nýtt malbik sé hált segir G. Pétur það einnig vera flókið mál.
„Þetta eru náttúrlega flókin fræði hvernig malbik er búið til í malbikunarstöð en við gerum einfaldlega kröfur um að þegar malbikið er lagt út þá sé það ekki hálla en eitthvað ákveðið,“ segir G. Pétur og bendir á að veðuraðstæður spila líka inn í, því að hiti og mikil rigning gera malbikið hálla.
Hraðatakmarkanir í þrjár til fimm vikur
Þær merkingar sem nú séu á leið niður hafi verið uppi í um þrjár til fimm vikur segir G. Pétur. Það hafi verið gert í öryggisskyni en Vegagerðin hefur auk þess mælt viðnám nýs malbiks þegar frá líður malbikun.
Í frétt á vef Vegagerðarinnar frá því í lok júní var sagt frá því að hraði yrði færður niður í kjölfar malbikunar. „Til framtíðar verður sú regla einnig tekið upp við lagningu malbiks að hraði verður ætíð tekinn niður. Hraðinn verður ekki hækkaður fyrr en viðnámið er ásættanlegt. Svæðið verður skiltað þannig að ekki fari á milli mála að mögulega sé malbik hálla en alla jafna og þá sérstaklega í miklum hita og/eða rigningu,“ segir þar. Þetta var gert í kjölfar mannskæðs umferðarslyss á Kjalarnesi í júní.
Sýni úr vegakaflanum á Kjalarnesi til rannsóknar
Á vegarkaflanum þar sem slysið varð var lagt nýtt malbik sem ekki mældist jafn hált og það sem á undan var. En hvernig er hægt að skýra það að ein lögun malbiks sé hálli en önnur? „Það getur líka verið erfitt að finna út úr því og þess vegna tókum við sýni úr tveimur köflum og sendum á Nýsköpunarmiðstöð til rannsóknar og eins út til Svíþjóðar. Það tekur langan tíma að finna út úr því en við erum að reyna að finna út hvað gerðist,“ segir G. Pétur.
Þar hafi margir samverkandi þættir orðið til þess að malbikið varð jafn hált og raun bar vitni. Fyrir það fyrsta var malbikið hált, það var mjög hlýtt í veðri og svo hafði rignt mikið og malbikið orðið hált vegna bleytu segir G. Pétur.