Fjöldi þeirra sem greinst hefur með virkt smit af kórónuveirunni hér á landi síðustu daga og er í einangrun er nú orðinn 112 samkvæmt því sem fram kemur á vefnum COVID.is.
Þrjú ný tilfelli greindust innanlands í gær, öll hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Þá greindust tvö virk smit í landamæraskimun. Í gær voru 914 manns í sóttkví en í dag er fjöldinn kominn í 946. Einn er í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans vegna sjúkdómsins.
Þetta er mun minni fjöldi en í gær þegar sautján innlandssmit greindust og þrjú á landamærunum.
581 sýni var tekið og greind hjá Landspítalanum í gær. Samkvæmt upplýsingum sem birtar voru á covid.is í morgun voru engin sýni tekin innanlands hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Af þeim sem eru með virkt smit eru flestir í aldurshópnum 18-29 ára eða 42. Tíu á aldrinum 13-17 ára eru með COVID-19 og eitt barn yngra en tólf ára.
Frá því að fyrsta smitið var greint hér á landi í lok febrúar hafa 1.955 manns greinst með COVID-19. Tíu hafa látist vegna sjúkdómsins.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í gær að fjölgun tilfella síðustu daga væri áhyggjuefni. Einnig væru alvarleg veikindi að aukast. „Við höfum verið að ræða hvort að þessi veira sé að veikjast – en ég held að það séu ekki merki um það. Við erum núna að fara að sjá alvarleg veikindi eins og við gerðum síðasta vetur.“
Sagðist hann hafa spurst fyrir erlendis og að enginn teldi að veiran væri eitthvað veikari núna en áður. Það hafi því verið „veik von“ að sú væri raunin nú miðað við faraldurinn í vetur. Skýringuna á því að alvarleg veikindi urðu ekki í upphafi þessarar bylgju segir Þórólfur líklega þá að ungt fólk er í miklum meirihluta þeirra sem hafa sýkst.