Þrír sjúklingar eru nú lagðir inn á Landspítala vegna kórónuveirusýkingar. Einn var lagður inn í gær og er sá á tvítugsaldri. Hann er ekki á gjörgæslu. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag. Fundurinn í dag var sá 100. sem almannavarnir boða til frá því að fyrsta kórónuveirusmitið greindist hér á landi í lok febrúar.
Fram hefur komið að hinir einstaklingarnir tveir eru á níræðisaldri og 31 árs. Sá síðarnefndi er í öndunarvél á gjörgæslu.
Þórólfur sagðist vera að vinna að nýju minnisblaði um áframhaldandi aðgerðir bæði á landamærum og innanlands þegar núverandi aðgerðum lýkur 13. ágúst. Hann sagði að hann myndi í minnisblaði til ráðherra velta upp nokkrum valkostum um framtíðaraðgerðir á landamærum Íslands og einnig sagðist hann vera með það til skoðunar að láta eins metra nándarreglu gilda hér, til dæmis í skólum.
Það er talað um að eins metra nándarmörk minnki líkur á smiti fimmfalt, sagði Þórólfur og minntist á að hún væri notuð í Noregi. Einnig kom fram í máli Þórólfs að til skoðunar væri að hætta svokallaðri sýnatöku tvö þar sem henni fylgi mikið álag og að einungis tvö sýni af 8.000 slíkum hafa reynst jákvæð fyrir COVID-19.
Þá sagði hann að til skoðunar væri að leyfa íþróttir með snertingu eftir 13. ágúst og leyfa knattspyrnu til dæmis að hefjast aftur.
Það er hins vegar mikilvægt að sjá fyrir endann á þeim faraldri sem nú er í gangi áður en hægt verður að létta á þeim takmörkunum sem hafa verið í gangi, sagði Þórólfur, sem telur þó ekki efni til þess að herða enn frekar á takmörkunum.
Ellefu smit tengd hópsýkingu í Eyjum
Tveir greindust jákvæðir í gær, báðir í skimun Íslenskrar erfðagreiningar í Vestmannaeyjum. Alls hafa 11 einstaklingar greinst í hópsýkingunni sem tengist Vestmannaeyjum.
Áfram er fólk að greinast með sama afbrigði veirunnar og áður og langflestir af þeim 117 sem greinst hafa innanlands undanfarnar vikur eru með þetta afbrigði veirunnar.