Alls fóru 131.611 farþegar um Keflavíkurflugvöll í júlí síðastliðnum samkvæmt tölum frá Isavia. Í sama mánuði í fyrra fóru um völlinn rúmlega 843 þúsund farþegar svo fækkunin milli ára nemur rúmum 84 prósentum. Nú í júlí nam fjöldi komufarþega alls rúmum 69 þúsundum, brottfararfarþegar voru rúmlega 59 þúsund og fjöldi skiptifarþega nam rúmlega þremur þúsundum.
Í mars fór verulega að hægjast á flugsamgöngum í heiminum vegna kórónuveirufaraldursins auk þess sem ferðalög fólks til landsins voru takmörkunum háð. Í kjölfarið dróst verulega úr umferð fólks í gegnum Keflavíkurflugvöll. Í apríl fóru rúmlega þrjú þúsund manns um flugvöllinn og í maí fóru rúmlega fjögur þúsund um flugvöllinn. Fjöldi farþega í þessum mánuðum dróst saman um rúmlega 99 prósent á milli ára.
Síðan fór að slakna á ferðatakmörkunum og frá og með 15. júní hefur verið skimað fyrir COVID-19 á flugvellinum. Í júnímánuði fjölgaði farþegum töluvert miðað við mánuðina tvo á undan. Um völlinn fóru rúmlega 29 þúsund í júní. Það er þó einungis brot af þeim fjölda sem fór um flugvöllinn í sama mánuði í fyrra. Þá fóru um völlinn tæplega 788 þúsund farþegar og samdrátturinn í júní nam því rúmum 96 prósentum á milli ára.