Fjöldi þeirra sem greinst hefur með virkt smit af kórónuveirunni hér á landi síðustu daga og er í einagrun er 114 samkvæmt því sem fram kemur á vefnum COVID.is.
Tvö ný tilfelli greindust innanlands í gær, bæði hjá Íslenskri erfðagreiningu. Eitt virkt smit greindist við landamærin. Í gær voru 962 í sóttkví en í dag er fjöldinn kominn niður í 938.
Tveir sjúklingar eru á sjúkrahúsi með COVID-19. Annar þeirra, maður á fertugsaldri, er á gjörgæsludeild Landspítalans og í öndunarvél.
179 sýni voru tekin og greind hjá Landspítalanum í gær og 59 hjá Íslenskri erfðagreiningu sem hóf m.a. skimun í Vestmannaeyjum í gær þar sem hópsmit kom upp um verslunarmannahelgina. Þetta eru nokkuð færri sýni en tekin voru innanlands dagana á undan.
Af þeim sem eru með virkt smit eru flestir í aldurshópnum 18-29 ára eða 45. Níu á aldrinum 13-17 ára eru með COVID-19 og eitt barn yngra en tólf ára.
Frá því að fyrsta smitið var greint hér á landi í lok febrúar hafa 1.962 greinst með COVID-19. Tíu hafa látist vegna sjúkdómsins.
Á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í síðustu viku kom fram að sóttvarnalæknir væri að vinna að nýjum tillögum um aðgerðir hér á landi sem hann svo skilar til heilbrigðisráðherra sem tekur endanlega ákvörðun um þær.
Á fundinum í gær kom fram að verulega vantaði upp á að sýkingavarnir væru til staðar á skemmtistöðum í Reykjavík. Lögreglan mun héðan í frá beita sektum og jafnvel lokunum komi sú staða upp aftur.