Icelandair Group er búið að undirritað samninga við alla kröfuhafa sína og er auk þess búið að ná endanlegu samkomulagi við bandaríska flugvélaframleiðandann Boeing vegna kyrrsetningar MAX flugvéla. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands sem send var út í kvöld.
Félagið tilkynnti fyrir nokkru að búið væri að semja við flesta kröfuhafa og að þeir sem væru eftir myndu klárast í síðustu viku. Nú liggur fyrir að því markmiði er náð, en það var forsenda þess að Icelandair gæti ráðist í hlutafjárútboð síðar í þessum mánuði.
Til viðbótar við samkomulagið við Boeing hefur félagið náð samkomulagi við kröfuhafa um skilmálabreytingar. Samningar við kröfuhafa taka mið af því að laga afborganir að væntu sjóðstreymi frá rekstri. Þeir eru háðir því að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár og geri samning um lánalínu með ríkisábyrgð, sem unnið er að slíkum samningi með aðkomu ríkisbankanna Íslandsbanka og Landsbankans.
Í tilkynningunni segir að viðræður við stjórnvöld um útfærslu lánalínunnar séu langt komnar. Félagið gerir ráð fyrir að birta fjárfestakynningu með ítarlegum upplýsingum fyrir fjárfesta og þátttakendur í fyrirhuguðu hlutafjárútboði og tímalínu á næstu dögum.