„Það er ánægjulegt að sjá að ekkert innanlandssmit greindist í gær,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag, en þó með þeim fyrirvara að enn ætti eftir að greina sýni sem Íslensk erfðagreining tók í Vestmannaeyjum. Hann sagði tölur síðustu daga líta út fyrir að það væri að takast að koma böndum yfir hópsýkinguna sem hér fór á flug fyrir mánaðamót.
Sóttvarnalæknir sagði okkur nú hafa lært að einungis þyrfti einn smitaðan einstakling til þess að koma af stað hópsmiti innanlands, en flest þau smit sem greinst hafa undanfarnar vikur hafa verið með sama uppruna samkvæmt raðgreiningu jákvæðra sýna, þó að afbrigðin hafi raunar verið tvö. Um 4.700 manns komu til landsins í gær og voru yfir 3.000 sýni tekin á landamærunum.
Með þetta í huga sagði Þórólfur að hann hefði lagt til við heilbrigðisráðherra að skimun yrði áfram beitt á landamærum í sambland við sóttkví, ef við vildum virkilega lágmarka áhættuna á því að smit bærist hingað til landsins, en í minnisblaðinu reifaði hann þó nokkra valmöguleika, kosti þeirra og galla út frá sóttvarnasjónarmiðum.
Í minnisblaðinu, sem Þórólfur skilaði til heilbrigðisráðherra í morgun, var einnig að finna tillögur um áframhaldandi sóttvarnaráðstafanir innanlands, með tilslökunum þó. Þórólfur segir ekki þörf á að herða aðgerðir innanlands.
„Ef að tölur næstu daga sýna áfram að við höfum náð utan um þennan faraldur sem er að ganga held ég að við ættum að geta tiltölulega fljótt farið að slaka á takmörkunum hér innanlands,“ sagði sóttvarnalæknir.
Hann hvatti þá sem eru með einkenni sem gætu bent til COVID-19 til þess að halda sig heima, hafa samband við heilsugæslu og láta fagfólkið ákvarða hvort þörf væri á sýnatöku.