„Þó svo að við séum að boða einhverjar tilslakanir hérna þá er það ekki þannig að við getum sest aftur í hægindastólinn og slakað á. Það gilda og munu gilda áfram svo lengi sem þessi veira er í samfélaginu, einstaklingsbundnar smitvarnir, sem ganga út á að þvo á sér hendurnar, spritta á sér hendurnar, þvo sameiginlega snertifleti, að vera í ekki of stórum hópum og halda þessari fjarlægð sem er í gildi – tveir metrarnir eru grunnreglan í því,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn við lok 101. upplýsingafundar almannavarna í dag.
Hann sagði, rétt eins og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, að nú virtist sem við værum að ná stjórn á þessari bylgju faraldursins. Væntanlega myndu fleiri greinast næstu daga, en við ættum ekki að láta það slá okkur út af laginu, heldur halda áfram að berjast gegn veirunni með þeim ráðum sem við höfum tiltæk.
Víðir þakkaði öllum þeim sem hefðu tekið þátt í því að vinna góða vinnu til þess að halda samfélaginu gangandi með þeim sóttvarnaráðstöfunum sem hafa verið í gildi frá því fyrir verslunarmannahelgi.
Rætt um ungt fólk eins og „geimverur“
Staða ungs fólks í þessum faraldri var sérstaklega tekin til umræðu á upplýsingafundinum í dag, en 37 prósent allra þeirra sem greinst hafa með veiruna í þeim hópsýkingum sem komið hafa upp undanfarnar vikur hafa verið á aldrinum 18-29 ára.
Eitthvað hefur borið á gagnrýni í garð atferlis ungs fólks í þessum faraldri – og það verið haft á orði að leiðbeiningar almannavarna og heilbrigðisyfirvalda séu ekki að ná nægilega vel til yngstu hópanna. Una Hildardóttir, forseti Landssambands ungmennafélaga, var á fundinum og sagði að mikilvægt væri fyrir yfirvöld og fjölmiðla landsins að tala við ungt fólk, ekki bara til þeirra.
„Við höfum fundið fyrir þeirri lensku núna að ungt fólk sé, líkt og oft áður, tekið út fyrir sviga og það sé rætt um það eins og einhvern hóp sem sé ekki hluti af samtalinu, eins og einhverjar geimverur,“ sagði Una og bætti við að einfalt væri að ná til ungs fólks og tala við það ef vilji væri fyrir hendi.
Hún sagði ungt fólk hafa tekið mikla ábyrgð í þessum faraldri, væri margt að vinna í framlínustörfum með viðkvæmustu hópunum í samfélaginu og væri að standa sig vel.