Fjöldi þeirra sem greinst hefur með virkt smit af kórónuveirunni hér á landi síðustu daga og er í einagrun er 115 samkvæmt því sem fram kemur á vefnum COVID.is. Fjögur ný tilfelli greindust innanlands í gær, öll hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalan. Ekkert virkt smit greindist við landamærin en í gær voru þau fimm sem er mesti fjöldi sem greinst hefur þar frá því að skimun ferðamanna hófst um miðjan júní.
Í gær voru 839 í sóttkví en í dag er fjöldinn kominn niður í 766.
Einn liggur enn á sjúkrahúsi með COVID-19 og er hann á gjörgæsludeild. Tveir sjúklingar voru inniliggjandi í gær en annar þeirra hefur verið útskrifaður.
667 sýni voru tekin og greind hjá Landspítalanum í gær og 523 hjá Íslenskri erfðagreiningu. Við landamærin voru tekin 2.115 sýni.
Allir þeir sem greinast með COVID-19 eru í umsjá COVID-göngudeildar Landspítala. Starfsmenn hennar annast eftirlit með sjúklingunum og eftir atvikum meðferð. „Núna eru rúmlega 100 fullorðnir í eftirliti hjá okkur og um ellefu börn sem starfsfólk Barnaspítala Hringsins sinnir,“ segir Runólfur Pálsson, forstöðumaður lyflækninga- og endurhæfingarþjónustu Landspítala, í ítarlegu viðtali við Kjarnann sem birt var í morgun.
Um nokkurt skeið hafa daglega bæst við sjúklingar en síðustu daga hafa nokkrir útskrifast sem hafa náð bata samkvæmt ákveðnum skilmerkjum. „Þess vegna hefur sjúklingum í umsjá göngudeildarinnar ekki fjölgað eins mikið og annars hefði verið,“ bendir Runólfur á. Til þess að sjúklingur sé útskrifaður úr eftirliti þarf hann að hafa verið einkennalaus í sjö daga og að minnsta kosti fjórtán dagar þurfa að hafa liðið frá greiningu. Fylgst er vel með þróun einkenna, jafnvel með daglegum símtölum, ekki síst vegna þess að dæmi eru um að þau geti versnað skyndilega og að hratt geti þurft að bregðast við.
Runólfur segir að heilt yfir hafi starfsemi göngudeildarinnar gengið vel og verkefnin verið viðráðanleg það sem af er þessari bylgju faraldursins. „Það skýrist mest af því að stærsti hluti þeirra sem sýkst hafa að undanförnu er ungt fólk og að langflestir hafa haft væg einkenni.“
Frá því að fyrsta smitið var greint hér á landi í lok febrúar hafa 1.972 greinst með COVID-19. Tíu hafa látist vegna sjúkdómsins.