Reynslan af því að íbúar á hjúkrunarheimilum gátu ekki fengið heimsóknir í vetur og vor vegna farsóttarinnar er ekki góð að sögn Þórunnar Sveinbjörnsdóttur, formanns Landssambands eldri borgara. „Fólki hrakaði. Til dæmis alzheimer-sjúkum, þeim hrakaði við það að enginn kom [í heimsókn] og þekktu svo jafnvel ekki sína nánustu.“
Þórunn segist gera sér grein fyrir því að takmarkanirnar hafi verið settar á í þeim tilgangi að vernda viðkvæma hópa samfélagsins. „En ég held að það sé vert að hugleiða fleiri möguleika, einhverja aðra möguleika til að hjálpa fólki að hittast. Leggja virkilega höfuðið í bleyti, hvernig getum við gert það. Og ég held að það hljóti að finnast einhverjar leiðir.“
Þórunn var gestur á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag. Sagði hún að eftir reynsluna í vetur og vor hafi gefist hlé í sumar til að fara yfir stöðuna meðal eldri borgara, kanna líðan þeirra og hagi. Þetta er stór hópur, um 45 þúsund manns, og líðan fólks eftir því fjölbreytt.
Eitt af því sem Þórunn segir breytt nú frá því sem var í vetur og vor sé að færri virðist vera úti að hreyfa sig. Hún vill sjá breytingu á því. „Hreyfing er gríðarlega mikilvæg,“ ítrekaði hún. „Við þurfum aftur að taka upp þessa bylgju sem fór í gang hvað þetta varðar.“ Hún sagði að það hættulegasta sem fólk gerði, ekki síst þegar veikindi eru í loftinu, það er að setjast niður og gera ekki neitt. „Við köllum það að vera sófakartafla eða sófadýr en það er hreinlega það versta sem þú getur gert fyrir þinn eigin líkama.“
Þórunn minnti líka á mikilvægi holls mataræðis og sagði að til dæmis núna væri úrval af fersku íslensku grænmeti gríðarlegt. „Það hefur klárlega komið í ljós að vannæring er til. Ekki aðeins út af heilsuleysi heldur líka út af því að yfir 10 prósent eldri borgara búa við fátækt. „Það er fólk sem virkilega þarf á okkur að halda.“
Að sögn Þórunnar var ýmislegt gert í vor og sumar sem skilaði góðum árangri. Sveitarfélögin hafi verið dugleg að annast félagsstarf aldraðra. Því hafi m.a. boðist kennsla á spjaldtölvur. „Þörfin var greinilega mikil. Elsti hópurinn okkar hann er ekki tengdur, eins og maður segir, og hann er að missa af svo mörgu. Við verðum að hjálpa þeim að vera með í okkar samfélagi eins og það virkar í dag.“
Einnig hafi símavinir, sem Rauði krossinn sem og sveitarfélög stóðu fyrir, gefið góða raun. „Það er svo dýrmætt og svo mikils virði,“ sagði Þórunn með áherslu. Fólki sem taldi sig þurfa vegna einmanaleika bauðst að fá símavin. Margir eru enn með sinn símavin, sagði Þórunn. „Ég er sjálf að prófa þetta og ég á indælan símavin. Þetta er nýr gluggi fyrir fólk inn í samfélagið.“
Þórunn sagði að mannleg virðing, sem yrði að sýna eldra fólki, væri eitt það mikilvægasta sem fyrir okkur öllum liggur. Hvatti hún m.a. ungt fólk til að tala oftar við afa og ömmu. Það er ómissandi.
Eldri borgarar voru mjög duglegir að ferðast innanlands í sumar – en þeir voru líka hræddir, töldu nándina á ferðalagi of mikla og treystu sér ekki til ferðalaga.
„Einmanaleiki er vágestur. Allar þjóðir í Evrópu eru að glíma við þetta,“ sagði Þórunn og biðlaði til eldri borgara að sýna varkárni og sinna persónulegum sýkingavörnum. Ef varúð er höfð eru eldri borgarar að hennar sögn á grænni grein „því við erum hraust að eðlisfari – enda sannir, gamlir víkingar eins og þið vitið – og ég óska öllum eldri borgurum góðs í þessu verkefni. Við stöndum saman og styðjum hvert annað.“