Fjöldi þeirra sem greinst hefur með virkt smit af kórónuveirunni hér á landi síðustu daga og er í einagrun er 112 samkvæmt því sem fram kemur á vefnum COVID.is. Í gær voru 120 manns í einangrun en þar sem nokkuð er liðið síðan að önnur bylgja faraldursins hófs hér á landi eru þeir sem fyrst greindust þegar farnir að útskrifast úr eftirliti hjá COVID-göngudeild Landspítalans.
Aðeins eitt nýtt tilfelli greindist innanlands í gær og var það greint hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Þá bíða átta sýni mótefnamælingar úr landamæraskimun.
Í gær voru 720 í sóttkví en í dag er fjöldinn kominn niður í 646.
Einn liggur enn á sjúkrahúsi með COVID-19 en hann er laus úr öndunarvél og ekki lengur á gjörgæsludeild.
315 sýni voru tekin og greind hjá Landspítalanum í gær og þrettán hjá Íslenskri erfðagreiningu. Við landamærin voru tekin 2.473 sýni.
Frá því að fyrsta smitið var greint hér á landi í lok febrúar hafa 1.983 greinst með COVID-19. Tíu hafa látist vegna sjúkdómsins.