Staðfest smit af kórónuveirunni hafa ekki verið fleiri í Frakklandi og á Spáni frá því takmörkunum var aflétt. Spánn ætlar að loka næturklúbbum og banna reykingar á almannafæri. Frakkland er nú komið á lista Breta yfir áhættulönd og krafist er tveggja vikna sóttkvíar af ferðamönnum sem þaðan koma. Frakkar segja að þá verði því eins farið með ferðamenn frá Bretlandi sem koma til Frakklands. Fleiri lönd fara á rauða listann hjá Bretum vegna fjölgunar tilfella: Holland, Malta, Mónakó og nokkrar eyjur í Karabíska hafinu, m.a. Aruba sem er vinsæll sumarleyfisstaður Breta.
Nær daglega berast fréttir af ýmist hertum aðgerðum eða tilslökunum vegna kórónuveirufaraldursins hér og þar í heiminum. Í Evrópu eru fréttirnar mjög tíðar þessa dagana og augljóst að hratt er þar oft brugðist við þegar smitum fjölgar eða hópsýkingar koma upp.
Sem dæmi hafa nú sex lén í Svíþjóð verið sett á „rauðan lista“ norskra stjórnvalda eftir að slakað hafði verið á aðgerðum gagnvart Svíþjóð fyrir þónokkru síðan. Þá hafa Norðmenn nú verið beðnir í fyrsta sinn að bera andlitsgrímur þegar þeir nota almenningssamgöngur og í höfuðborginni Ósló sé ekki hægt að tryggja 1 metra fjarlægð milli fólks.
Spánverjar kynntu í gær hertar aðgerðir í ellefu liðum sem m.a. fela í sér að næturklúbbar og aðrir staðir sem veita vín fram eftir nóttu verður lokað. Einnig verða reykingar á almenningsstöðum bannaðar ef ekki er hægt að tryggja 1,5 metra fjarlægð milli fólks. Á veitingastöðum verður einnig að tryggja 1,5 metra bil milli borða og þar mega ekki fleiri en tíu manns koma saman í hópum. Í gær greindust tæplega 3.000 ný tilfelli af COVID-19 í landinu. Heilbrigðisráðherrann segir að aðgerðirnar séu vægar og að vel geti verið að ákveðin svæði herði á reglum á næstunni.
Á Ítalíu, sem varð hvað verst úti í fyrstu bylgju faraldursins, hefur nú verið ákveðið að Ítalir og aðrir búsettir í landinu sem snúa heim úr sumarfríium á Spáni, Króatíu, Möltu og Grikklandi, þurfa að fara í skimun. Yfir 500 ný tilfelli greindust þar í gær og heilbrigðisráðherrann segir nauðsynlegt að grípa til aðgerða strax til að viðhalda þeim árangri sem náðist í vetur. Yfir 250 þúsund manns hafa greinst með veiruna á Ítalíu. Yfir 35.200 hafa látist, þar af sex í gær.
Staðan í Þýskalandi hefur einnig breyst. Í dag var til dæmis upplýst að fjórum sinnum fleiri íbúar í bænum Kupferzellen smituðust af veirunni en áður var talið. Þetta er meðal niðurstaðna á mótefnamælingum sem þýska smitsjúkdómastofnunin hefur staðið fyrir. Samkvæmt mælingunum smituðust 7,7 prósent íbúa bæjarins af veirunni sem þýðir að einn af hverjum fimm sýndi engin einkenni.
Grísk stjórnvöld hafa ákveðið að herða samkomutakmarkanir og að ekki megi fleiri en fimmtíu koma saman.
Á Nýja-Sjálandi er komið upp hópsmit sem reynt er að einangra með hörðum en fyrst og fremst staðbundnum aðgerðum. Aðgerðirnar beinast aðallega að borginni Auckland þar sem smitið uppgötvaðist og þar eru þær á þriðja stigi almannavarna sem þýðir að fólk má ekki fara að heiman nema að brýna nauðyn beri til. Í morgun framlengdi forsætisráðherrann Jacinda Ardern takmarkanirnar um tólf daga.
Í yfir hundrað daga greindist ekkert nýtt innanlandssmit í landinu en nú eru þau orðin yfir 30 á nokkrum dögum.
Þriðja daginn í röð greindust yfir 60 þúsund ný smit á Indlandi. Hópsmit hefur m.a. breiðst út í einu stærsta fangelsi landsins og þar er um fjórðungur fanga smitaður. Faraldurinn hefur komið mjög illa við Indverja og hvergi í heiminum, fyrir utan Bandaríkin og Brasilíu, hafa fleiri tilfelli greinst.
Það segir þó aðeins hluta af sögunni þar sem skimunargeta ríkja er mjög misjöfn. Það sem sérfræðingar óttast nú er sú staðreynd að faraldurinn er farinn að breiðast út til dreifbýlla svæða á Indlandi þar sem gríðarleg fátækt er og mikil vöntun á heilbrigðisþjónustu.
Í Rússlandi greinast nú yfir 5.000 manns á dag með veiruna og daglega eru dauðsföll yfir hundrað. Í Úkraínu virðist faraldurinn einnig vera að færast í aukana og þar greindust í gær yfir 1.700 tilfelli og hafa þau aldrei verið fleiri á einum degi. Yfir 2.000 manns hafa látist vegna COVID-19 í Úkraínu og sérfræðingar hafa áhyggjur af veldisvexti í fjölda sýkinga síðustu vikurnar.
Faraldurinn er ekki í rénun á heimsvísu. Og í flestum ríkjum þar sem tilslakanir hafa verið gerðar hefur tilfellum fjölgað á ný.
Í gær ákvað ríkisstjórn Íslands að krefjast þess að allir farþegar sem hingað koma fari í tvær skimanir með sóttkví á milli. Þær reglur taka gildi á miðvikudag í næstu viku.