Ekki allar þær grímur sem hafa verið til sölu hér á landi uppfylla þær kröfur sem sóttvarnalæknir hefur sagt að þurfi að vera til staðar og landlæknisembættið hefur til viðmiðunar, en samkvæmt leiðbeiningum þaðan eiga allar einnota grímur hið minnsta að uppfylla kröfur sem fram koma í vinnustofusamþykkt evrópsku staðlasamtakanna.
Neytendastofa fylgist með grímumarkaðnum og dæmi eru um að stofnunin hafi látið taka grímur úr sölu sem uppfyllt lágmarkskröfur. Raunar hefur töluvert magn slíkra verið tekið úr sölu, eins og fram kom í umfjöllun Verðlagseftirlits ASÍ um grímumarkaðinn í vikunni.
Við verðkönnun ASÍ kom í ljós að stykkjaverðið á þriggja laga einnota grímum væri æði misjafnt, allt frá 49 krónum þar sem það var lægst og upp í 298 krónur, en ekki var lagt mat á gæði grímanna við verðkönnunina.
Þórunn Anna Árnasdóttir forstjóri Neytendastofu segir að verið sé að kanna vottanir á þeim grímum sem eru til sölu á landinu og hún bætir við, í svari við fyrirspurn Kjarnans, að til skoðunar sé hvort þörf sé á að gefa út sérstakar leiðbeiningar til söluaðila gríma.
Hún segir að stofnunin hafi fengið ábendingar frá neytendum sem brugðist sé við, „þar sem stofnunin vill alls ekki að neytendur séu með grímur sem veita falskt öryggi.“
Það eru þrjár mismunandi stofnanir sem hafa eftirlit með grímum sem seldar eru á Íslandi. Neytendastofa hefur eftirlit með grímum fyrir neytendur, Lyfjastofnun hefur eftirlitshlutverk þegar kemur að grímum sem teljast lækningatæki og Vinnueftirlitið hefur eftirlit með grímum fyrir atvinnulífið.
Þórunn Anna segir að Neytendastofa sé í góðu samstarfi við hin stjórnvöldin um grímueftirlit nú þegar spurn eftir grímum er meiri en nokkru sinni fyrr.
„Neytendastofa er einnig í góðu samstarfi við stjórnvöld í Evrópu sem við fáum ábendingar frá og erum í sameiginlegu átaki með,“ segir forstjórinn.