Meginmarkmið stjórnvalda nú er að ná tökum á faraldrinum hér innanlands með það fyrir augum að heilbrigðiskerfið ráði við þá bylgju sem við erum á núna sem og til þess að verja þá sem viðkvæmastir eru. Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á upplýsingafundi ríkisstjórnarinnar sem haldinn var í Safnahúsinu við Hverfisgötu í dag.
Á fundinum voru kynntar hertar aðgerðir í landamæraskimun. Nú munu allir komufarþegar þurfa að fara í skimun við komuna til landsins, sæta fjögurra til fimm daga sóttkví og fara svo í seinni skimun.
Mikilvægt að fara að ráði sóttvarnayfirvalda
Svandís lagði áherslu á að einstaklingsbundnar smitvarnir væru ef til vill það sem skipti mestu máli í baráttunni við faraldurinn. „Ég vil líka leggja áherslu á það að hér eftir sem hingað til höfum við á Íslandi borið gæfu til þess að taka ákvarðanir sem eru tiltölulega lítið íþyngjandi fyrir samfélagið. Vegna þess að við leggjum mikla áherslu á það að samfélagið sé í gangi. Að það virki. Að fólk sé að hittast, að fólk sé að tala saman. Að við höldum áfram að til eins og við höfum margoft sagt,“ sagði hún í kjölfarið.
Hún sagði það einnig mjög mikilvægt að fara að ráði sóttvarnayfirvalda, því þau viti best hvernig eigi að glíma við faraldurinn. „Það viljum við líka gera. Vegna þess að það er ákvörðun og það er líka ákvörðun sem er pólitísk að leyfa stjórnmálunum að vera í aftursætinu þegar komið er að vísindalegum viðfangsefnum. Að gera kröfu um það. Að setja sjálfan sig í annað sæti þegar komið er að vísindalegum áskorunum.“
Hún sagði þekkingu á veirunni vaxa dag frá degi, þannig virki vísindin. Hún sagði stjórnvöld og samfélagið þurfa að hafa sveigjanleika til þess að fylgja eftir sjónarmiðum sóttvarnayfirvalda. Það hafi verið okkar gæfa hingað til og sagðist Svandís vilja að svo yrði áfram.
Ekki hægt að leggja hagrænt mat á allt
„Samfélag er nefnilega ekki bara hagtölur og samfélag er ekki bara ríkisreikningurinn eða hagvöxturinn eða hvað það er sem við viljum að það sé. Það er svo óendanlega mikils virði að samfélagið virki þannig að okkur líði vel í því. Og sumt af því er þannig að við getum ekki einu sinni sett á það eitthvað hagrænt mat. Þó það fari ægilega í taugarnar á okkur í stjórnvöldunum að geta ekki sett hagrænt mat á allt. Þá er sumt þannig að það er einfaldlega ekki hægt. Og það er það að lifa og hrærast í öflugu og opnu samfélagi. Það er samfélag þar sem eru sterkir skólar. Þar sem er öruggt og öflugt heilbrigðiskerfi og þar sem að menningarlífið blómstrar á hverjum einasta degi,“ sagði Svandís.
Hún sagði í kjölfarið að ákvarðanir stjórnvalda væru teknar með það í huga að samfélagið gæti verið þannig. Þá nýtti hún tækifærið til að minna á þátt hvers og eins í baráttunni við veiruna: Við erum öll almannavarnir og það gildir í dag, það mun gilda enn um sinn og ef við hjálpumst að þá munum við komast í gegnum þetta saman.“