Íslandshótel hf., sem rekur meðal annars Grand hótel, hefur lagt til breytingar á greiðsluferli og skilmálum við þá sem eiga skuldabréf í hótelkeðjunni, en breytingarnar fela meðal í sér greiðslufrystingu næstu fjóra gjalddaga, eða þar til á síðari hluta árs 2021. Um er að ræða skuldabréfaflokk upp á tæplega 2,9 milljarða króna.
Hótelkeðjan, sem er sú stærsta á Íslandi með hátt í 2.000 hótelherbergi til umráða, leggur til að lokagjalddagi skuldabréfanna verði færður aftur um eitt ár, eða til ársins 2048 og að vikið verði tímabundið frá fjárhagslegum skilyrðum varðandi takmarkaða skuldsetningu og 20 prósenta eiginfjárkvöð.
Í greinargerð með tillögu Íslandshótela segir að með þessu sé verið að biðja skuldabréfaeigendur að veita félaginu sambærilegar tilslakanir og viðskiptabanki þess hefur þegar gert og að COVID-19 heimsfaraldurinn hafi haft veruleg áhrif á ferðaþjónustuna um heim allan.
„Ferðatakmarkanir og aðrar takmarkanir eru enn í gildi í ákveðnum löndum sem eru mikilvæg fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi. Ekki er hægt að sjá hvenær eftirspurn eftir ferðalögum mun komast aftur á eðlilegt stig,“ segir jafnframt í greinargerð hótelkeðjunnar.
Íslandshótel segjast hafa brugðist við hrapandi eftirspurn eftir gistingu með því meðal annars að loka hótelum, bjóða sértilboð markaðssett fyrir innanlandsmarkað, með víðtækum uppsögnum starfsmanna og almennri endurskipulagningu rekstrarins.
„Rekstur félagsins hefur verið aðlagaður að framboði ferðamanna og miðar stefna félagsins að því að tryggja reksturinn og skapa sveigjanleika þannig að hægt verði að grípa skjótt til aðgerða um leið og ferðaþjónustan tekur við sér á nýjan leik,“ segir í greinargerð með tillögunni.
Skuldabréfaeigendur hafa verið boðaðir á fund á Grand hótel 28. ágúst þar sem þessar skilmálabreytingar verða lagðar fyrir og þarf samþykki frá 90 prósent þeirra skuldabréfaeigenda sem til fundarins mæta til þess að tillagan teljist samþykkt, en atkvæðisréttur miðast við fjárhæð.