„Ég skil vel hvernig þetta kom við fólk. Þessi myndataka af okkur saman í einum hópi, þrátt fyrir strangt til tekið skiljist mér að það sé ekki brot á einhverjum reglum, að þá var hún óþarfi og við hefðum ekki átt að taka hana. Og mér þykir það leitt.“
Þetta sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í fréttum RÚV í kvöld en myndir af vinkonuhittingi hennar um helgina, þar sem þær voru myndaðar nokkrum sinnum saman í einum hnappi, hefur sætt gagnrýni í ljósi tveggja metra reglunnar svokölluðu sem var ekki viðhöfð við þær myndatökur. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kallaði hegðun hennar „óheppilega“ í dag.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í Kastljósi í kvöld að það væri auðvitað þannig að ríkari kröfur væru gerðar til ráðherra en annarra að passa sig í sínum einstaklingsbundnu sóttvörnum.
Í stöðuuppfærslu á Facebook í gær skrifaði Þórdís: „Ég átti langþráðan frídag með æskuvinkonum mínum sem mér þykir vænt um og dagurinn, sem ég hafði hlakkað mikið til, var nærandi. En dagurinn í dag síður og einfaldara hefði verið að ákveða að vera ekki með þeim.“
Í viðtalinu við RÚV í kvöld sagði Þórdís að það hafi ekki verið þannig að hún hefði þurft svo ofboðslega mikið á fríi að halda, heldur hefði verið langþráð að hitta æskuvinkonur sínar. Þær búi í mismunandi bæjarfélögum og hittist ekki oft. „Ég átta mig á að ég er í framlínu og fronti og þetta er risastórt verkefni og okkur líður öllum allskonar. En ég bara fullvissa fólk um að ég er að gera mitt besta og ég mun áfram segja að einstaklingsbundnar sóttvarnir séu mikilvægasta verkfærið okkar í þessari veiru.“
Aðspurð hvort þeir sem væru að virða tveggja metra regluna í sínu daglega lífi væru að misskilja tilmæli stjórnvalda sagði hún að almenna reglan væri tveggja metra reglan. „Það er skylda rekstraraðila að fólk geti komið inn á veitingastað og viðhaldið þessari tveggja metra reglu. En að öðru leyti finnst mér þríeykið hafa svarað þessu ágætlega í dag. Ég tek þetta til mín og vanda mig. En ég taldi mig að sjálfsögðu vera að fylgja reglum.“
Þórdís sagði að þeir sem frestuðu atburðum væru að taka einstaklingsbundnar ákvarðanir. „Ég myndi sjálf ekki halda hundrað manna fermingarveislu. En það er líka stórt verkefni að finna út úr því hvernig við gerum þetta saman. Ég átta mig á mínu hlutverki í því.“