Erlend kortavelta hérlendis nam rúmum 10 milljörðum króna í júlí, sem er tæpur þriðjungur af því sem hún var í sama mánuði í fyrra en þá nam erlend kortavelta tæpum 31 milljarði króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar. „Upphæðin er hærri en í mars, til og með júní síðastliðnum en fyrir þann tíma þarf að fara aftur til janúar 2016 til finna lægri veltu erlendra korta í einum mánuði,“ segir enn fremur í tilkynningunni.
Þar segir að minnstur hafi samdrátturinn verið í flokki verslunar en í júlí nam velta erlendra korta í verslunum um 2,2 milljörðum króna. Í undirflokki verslunar hafi verið mest velta í flokki dagvöru og stórmarkaða, alls 881 milljón króna eða rétt um helmingur af því sem veltan var í sama mánuði í fyrra.
81 prósent samdráttur hjá ferðaskrifstofum og -skipuleggjendum
Á eftir verslun í veltu kom gistiþjónustu en erlend kortavelta flokksins nam alls 2,1 milljarði króna í júlí en erlend kortavelta er jafnan mest í flokki gistiþjónustu að því er kemur fram í tilkynningu Rannsóknarsetursins. Erlend velta í veitingaþjónustu dróst saman um tvo þriðju á milli ára og nam 1,2 milljörðum í júlí.
Erlend velta bílaleiga nam 1,2 milljörðum króna í júlí og dróst saman um 68 prósent milli ára. Samdrátturinn var mjög mikill í flokknum ýmis ferðaþjónusta sem inniheldur meðal annars ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur. Í júlí nam erlend kortavelta í þeim flokki um 900 milljónum króna og dróst saman um 81 prósent á milli ára.
Danir eyddu mestu
Sú þjóð sem eyddi mestu hér á landi í júlí voru Danir en kortavelta þeirra var nærri tvöfalt meiri í júlí í ár heldur en í sama mánuði í fyrra. Í júlí nam velta danskra greiðslukorta 1,8 milljörðum en í sama mánuði í fyrra nam veltan tæpum 960 milljónum.
Á eftir Dönum í kortaveltu koma Þjóðverjar, en kortavelta þeirra í júlí nam rúmum 1,7 milljörðum í mánuðinum og dregst saman um 30 prósent frá sama mánuði í fyrra. Bæði Þýskaland og Danmörk voru sett á lista yfir örugg lönd um miðjan júlí sem þýddi að farþegar sem þaðan komu þurftu ekki að fara í skimun eða sóttkví að því gefnu að farþegarnir hefðu dvalist þar í að minnsta kosti hálfan mánuð fyrir ferðalagið til Íslands. Á eftir Dönum og Þjóðverjum í kortaveltu koma Bretar en kortavelta þeirra í júlí nam tæpum 1,1 milljarða króna í mánuðinum og dróst saman um nærri 70 prósent frá sama mánuði í fyrra.
Fleiri Danir í ár en í fyrra
Samkvæmt talningu Ferðamálstofu og Isavia fyrir júlí áttu mun fleiri ferðamenn frá Danmörku og Þýskalandi leið um Keflavíkurflugvöll í mánuðinum heldur en ferðamenn frá öðrum löndum. Af alls tæplega 46 þúsund brottförum erlendra farþega voru tæplega 10 þúsund tilkomnar vegna Dana og rúmlega 9 þúsund vegna Þjóðverja. Þar á eftir koma Pólverjar og Svisslendingar með rúmlega þrjú þúsund brottfarir á hvora þjóð fyrir sig.
Samkvæmt tölum Isavia og Ferðamálastofu drógust brottfarar elrendra farþega frá Keflavíkurflugvelli töluvert saman fyrir farþega frá öllum löndum nema Danmörku. Brottförum Dana fjölgaði um tæp 33 prósent á milli ára en þær voru um 7.500 í sama mánuði í fyrra. Til samanburðar fækkaði brottförum Þjóðverja um rúmlega helming milli ára.
Íslendingar slógu met í kortaveltu
Líkt og Kjarninn sagði frá fyrr í dag þá var júlí síðastliðinn metmánuður í kortaveltu Íslendinga. Alls greiddu Íslendingar 81,2 milljarða króna með greiðslukortum innanlands í júlí og var heildarvöxtur innlendra korta hérlendis í júlí í ár 18,5 prósent milli ára. Það þýðir að neyslan hafi aukist um 12,7 milljarða króna í júlí milli ára. Ástæða mikillar neyslu Íslendinga hérlendis í mánuðinum er sögð vera að fáir landsmenn leituðu út fyrir landsteinana í sumar og neyslan því haldist hér heima.
„Íslendingar greiddu ríflega tvöfalt meira til gististaða í júlí síðastliðnum samanborið við júlí í fyrra, alls 2,2 milljarða í júlí í ár samanborið við 930 milljónir í fyrra. Í júnímánuði var innlend kortavelta gististaða einnig há eða um 1,3 milljarðar, 75% meira en í júní í fyrra,“ segir í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar vegna uppfærðra talna um veltu innlendra korta.
Algjör óvissa í ferðaþjónustu
Á föstudag var minnisblað um efnahagsleg sjónarmið við ákvörðun um umfang sóttvarnarráðstafana á landamærum birt. Þar er meðal annars sagt að óvissa um horfur í ferðaþjónustu sé alger. Það sé í raun ógerningur að spá fyrir um komur ferðamanna það sem eftir lifir árs. Sé hins vegar gert ráð fyrir fyrir óbreyttum aðstæðum út árið og fjöldi ferðamanna framreiknaður miðað við fjölda ferðamanna í júlí ásamt árstíðasveiflu fæst sú niðurstaða að hingað gætu komið á bilinu 165 til 200 þúsund ferðamenn það sem eftir lifir árs. „Reynist nauðsynlegt að beita harðari sóttvarnaráðstöfunum til að sporna gegn útbreiðslu veirunnar sem draga verulega úr eða koma í veg fyrir komur ferðamanna gæti þjóðarbúið orðið af 20-24 mö.kr til ársloka vegna minni umsvifa í ferðaþjónustu.“
Í minnisblaðinu sagði að augljósasti ábati þess að létta á ferðatakmörkunum væri tekjur í ferðaþjónustu. Þar sagði einnig að minni ferðalög landsmanna erlendis hefðu þann kost að flytja hluta af erlendri neyslu landsmanna til landsins. Þá geti efnahagslegir hagsmunir af því að komast hjá hörðum sóttvarnaaðgerðum hlaupið á hundruðum milljarða samkvæmt minnisblaðinu.