Íslendingar greiddu 81,2 milljörðum króna með greiðslukortum innanlands í júlímánuði. Þar af nam verslun 44,7 milljörðum króna. Kortavelta landsmanna hefur aldrei verið jafn há og hún var í síðasta mánuði, þegar fjölmargir landsmenn eyddu fjármunum sem þeir að öllu jafna eyða erlendis, í innlenda neyslu.
Alls eyddu Íslendingar um 200 milljörðum króna erlendis í fyrra. Heildarvöxtur innlenda korta hérlendis í júlí í ár 18,5 prósent meiri en í júlímánuði 2019. Það þýðir neyslan hafi aukist um 12,7 milljarða króna í júlí.
Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Rannsóknarseturs verslunarinnar um kortaveltu Íslendinga.
Í tilkynningu frá setrinu segir að Íslendingar hafi greitt ríflega tvöfalt meira til gististaða í júlí síðastliðnum samanborið við júlí í fyrra, alls 2,2 milljarða í júlí í ár samanborið við 930 milljónir í fyrra. „Í júnímánuði var innlend kortavelta gististaða einnig há eða um 1,3 milljarðar, 75 prósent meira en í júní í fyrra. Innlend kortavelta veitingastaða jókst hóflegar á milli ára, um 29 prósent og nam 6,8 milljörðum í júlí sem leið. Þá jókst eldsneytissala til Íslendinga um tæp 7 prósent samanborið við júlí 2019.“
Rannsóknarsetur verslunarinnar segir að innlend kortavelta hafi aukist í öllu undirflokkum verslunar, en mest í netverslun þar sem hún jókst um 83 prósent milli ára. Þegar samkomutakmarkanir voru sem mest íþyngjandi í apríl, var hlutfall netverslunar af heildarverslun um níu prósent en lækkaði næstu mánuði og var 3,9 prósent í júlí. Það er þó hærra hlutfall en netverslun hafði í heildarverslun áður en að heimsfaraldurinn skall á.
Stórmarkaðir og dagvöruverslanir eru eftir sem áður stærsti undirflokkur verslunar og nam innlend kortavelta flokksins alls 18,4 milljörðum króna í júlí.
Efnahagslegir hagsmunir af lokun metnir miklir
Í lok síðustu viku birtu stjórnvöld minnisblaðið um að efnahagslegu áhrifin af því að herða takmarkanir á landamærum landsins væru líklega hagkvæmari en af því að hafa þau meira opin, líkt og þau höfðu verið frá miðjum júní. Í minnisblaðinu var lagt mat á efnahagsleg áhrif þess að opna landið og borið það saman við ábatann af því að hleypa ferðamönnum inn.
Í minnisblaðinu sagði að „efnahagslegir hagsmunir af því að komast hjá hörðum sóttvarnaaðgerðum geta hlaupið á hundruðum milljarða króna“.
Þar sagði að frá því að takmörkunum var lyft á landamærum Íslands um miðjan júní hefðu um 70 þúsund ferðamenn komið til landsins auk um 45 þúsund íslenskra ríkisborgara. Framlag hvers ferðamanns á hagkerfið er metið á 100 til 120 þúsund krónur og því er áætlað að þeir ferðamenn sem hafa heimsótt Ísland síðustu tvo mánuði hafi lagt um átta milljarða króna til efnahagslífsins á þeim tíma. Til samanburðar gæti útbreiðsla faraldursins dregið úr neyslu innanlands um tíu milljarða króna, líkt og gerðist þegar sett var á hart samkomubann hérlendis í vor.
Verðum af 20 til 24 milljörðum króna
Í sama minnisblaði var reynt að spá fyrir um hversu margir ferðamenn myndu koma til landsins ef ekki hefði verið tekin ákvörðun um að herða takmarkanir á landamærum, líkt og gert var í síðustu viku.
Þar segir að ógerningur sé að spá fyrir um slíkar komur með góðu móti þegar aðstæður geta breyst verulega milli daga. „Ef hins vegar gert er ráð fyrir óbreyttum aðstæðum út árið má nota komur ferðamanna í júlí ásamt árstíðasveiflu í fjölda ferðamanna árið 2019 til að framreikna fjölda ferðamanna það sem eftir lifir árs. Slík æfing bendir til þess að fjöldi erlendra ferðamanna sem heimsækja landið það sem eftir lifir árs gæti legið á bilinu 165 til 200 þúsund. Reynist nauðsynlegt að beita harðari sóttvarnaráðstöfunum til að sporna gegn útbreiðslu veirunnar en draga verulega úr eða koma í veg fyrir komur ferðamanna gæti þjóðarbúið orðið af 20-24 mö.kr til ársloka vegna minni umsvifa í ferðaþjónustu.“
Á móti hafi Íslendingar flutt til landsins neyslu sem ella hefði átt sér stað erlendis, en kortavelta Íslendinga hér á landi í júní óx um 13 milljarða króna samanborið við sama mánuð í fyrra og um 12,7 milljarða króna í júlí.