Aðgerðir fyrir lítil fyrirtæki, svokallaðir lokunarstyrkir og stuðningslán, áttu að fela í sér útgjöld upp á rúmlega 30 milljarða króna. Nú, fjórum mánuðum eftir að aðgerðirnar voru kynntar, er samanlagður kostnaður við þær um tveir milljarðar króna.
Þetta má lesa út mælaborði um stöðu aðgerða sem stjórnvöld hafa gripið til vegna COVID-19, sem birt var á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins á þriðjudag.
Þegar stjórnvöld kynntu annan aðgerðapakka sinn vegna efnahagsáhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru var meðal annars kynntur til leiks sérstakur pakki fyrir lítil fyrirtæki.
Styrkirnir voru í boði fyrir þau fyrirtæki sem gátu sýnt fram á að minnsta kosti 40 prósent tekjufall og að þau væru með opinber gjöld í skilum. Hver aðili myndi geta fengið allt að 800 þúsund krónur fyrir hvern starfsmann en 2,4 milljóna króna styrk að hámarki. Áætlað var að styrkirnir myndu geta náð til allt að tvö þúsund fyrirtækja.
18. ágúst höfðu 170 umsóknir borist með reiknuðum styrk upp á 196,5 milljónir króna. Af þeim hafa 125 umsóknir verið samþykktar og útgreiðslur nema 137 milljónum króna.
Lánin áttu að vera 28 milljarðar en eru undir tveimur
Hitt megin úrræðið í aðgerðarpakka stjórnvalda fyrir lítil fyrirtæki voru svokölluð stuðningslán, einnig kölluð sérstök lán til lítilla fyrirtækja. Til að teljast til slíkra fyrirtækja þurfti að vera með tekjur undir 500 milljónum króna á ári. Lánin, sem njóta 100 prósent ríkisábyrgðar, standa einungis fyrirtækjum sem hafa orðið fyrir að minnsta kosti 40 prósent tekjufalli til boða, sem er sama skilyrði og gildir fyrir hin svokölluðu brúarlán til stærri fyrirtækja sem kynnt voru til leiks mánuði áður.
Lánin til fyrirtækjanna átti að verða hægt að sækja um með einföldum hætti á Island.is en þau nema að hámarki sex milljónir krónur á hvert fyrirtæki. Heildarumfang lánanna átti að geta orðið allt að 28 milljarðar króna í heild, að mati stjórnvalda.
Þann 18. ágúst höfðu alls 567 umsóknir um stuðningslán borist og heildarfjárhæð umsókna var 5,1 milljarður króna. Búið var að afgreiða undir helming umsókna, eða 237, og greiða út alls 1,9 milljarða króna í stuðningslán.
Þegar aðgerðirnar voru kynntar reiknuðu stjórnvöld með að heildarútgjöld vegna þessara tveggja aðgerða gætu numið rúmlega 30 milljörðum króna. Enn sem komið er eru þau um tveir milljarðar króna.