Vinnumálastofnun segir að vegna mikils álags geti tekið um átta vikur að ljúka við afgreiðslu umsókna um atvinnuleysisbætur, en á meðan ekki er búið að afgreiða umsóknina berast engar greiðslur til umsækjenda.
Sumir þurfa því að leita á náðir félagsmálayfirvalda í sínu sveitarfélagi eða lánastofnana til þess að fá lán fyrir framfærslu á meðan þeir bíða þess að fá atvinnuleysisbætur greiddar út.
Kjarninn hefur heyrt af dæmum þess að afgreiðslutíminn hafi í sumar verið enn lengri en þær átta vikur sem Vinnumálastofnun gefur upp og ræddi málið við Unni Sverrisdóttur, forstjóra stofnunarinnar.
„Það er ekki lengur þannig. Það er orðið mjög lítið sem er eldra en átta vikna hjá okkur. Við erum búin að vera í markvissu átaki og þetta hefur verið í algjörum forgangi og það er hver einasti maður að vinna hér í að afgreiða umsóknirnar, sama hvaða starfi hann gegndi áður,“ segir Unnur við Kjarnann.
Hún segist átta sig á því að staða þeirra sem voru á lágum launum og þurfi að bíða þetta lengi eftir að fyrstu greiðslur berist frá Vinnumálastofnun sé erfið. „Félagsmálayfirvöld hafa, eins og hérna í Reykjavík, þau veita lán og lána fólki fyrir framfærslu á meðan. Það er í rauninni það eina sem við getum bent fólki á, því miður. Það er annað hvort yfirdráttur í banka eða eitthvað slíkt, eða þá að leita til félagsmálayfirvalda,“ segir Unnur.
Hún segist ekki vita hvort bankar séu almennt til í að gera mikið til að hjálpa atvinnulausum tímabundið með framfærslu. „Ætli það sé ekki svolítið einstaklingsbundið og snúist um í hversu góðu sambandi þú ert við bankann þinn. Ég held að það hljóti nú að vera, en þetta er auðvitað gríðarlega erfitt fyrir þá sem eru að missa vinnu og hafa verið á lágum launum. Við gerum okkur alveg fullkomlega grein fyrir því,“ segir Unnur.
Búist við um 3.000 umsóknum í hverjum mánuði fram að jólum
Forstjórinn segir að það sé að takast að vinna niður þann flöskuháls sem myndaðist í mars og apríl þegar það voru á bilinu 40 til 50 þúsund manns í greiðsluþjónustu hjá Vinnumálastofnun, meirihluti vegna hlutabótaleiðarinnar. En áfram bætist þó við.
„Greiningardeildin hjá okkur er að gera ráð fyrir að jafnaði um 3.000 umsóknum í hverjum mánuði fram að jólum,“ segir Unnur. Atvinnuleysið muni því aukast hægt og sígandi.
Stofnunin bætti við sig starfsfólki í sumar til þess að takast á við aukin verkefni og segist Unnur finna fyrir stuðningi frá stjórnvöldum til að halda auknum mannskap í vinnu hjá Vinnumálastofnun, enda sé veturinn „svolítið ískyggilegur“.
„Ég á ekki von á öðru,“ segir Unnur spurð að því hvort hún haldi að Vinnumálastofnun fái fjárveitingar til að halda því fólki við störf sem ráðið var þegar álagið jókst. „Ég held að stjórnvöld kæri sig ekki um þennan biðtíma í afgreiðslu, ég finn frekar fyrir stuðningi til þess að halda í þetta fólk heldur en hitt. Það er bara svo einfalt, það sjá það allir að þetta er ótrúleg aukning á einu ári.“
Kostnaður vegna atvinnuleysistrygginga þegar kominn yfir 60 milljarða á árinu
Samkvæmt yfirliti stjórnvalda yfir stöðu stærstu efnahagsaðgerðanna sem gripið var til vegna kórónuveirufaraldursins hafa um 18 milljarðar króna þegar verið greiddir út vegna hinnar svokölluðu hlutabótaleiðar, sem ætluð var til að verja ráðningarsamband fyrirtækja og starfsfólks í því mikla óvissuástandi sem skapaðist fyrr á árinu. Upphaflega áætluðu stjórnvöld að framkvæmd hlutabótaleiðarinnar myndi kosta 22 milljarða króna.
Í yfirliti stjórnvalda einnig fram að þegar sé búið að greiða út 43,5 milljarða í almennar atvinnuleysisbætur það sem af er ári. Þetta er langt um fram það sem áætlað var í upphafi árs, er fregnir af kórónuveirufaraldrinum voru fjarri vitund flestra.
Þá gerðu stjórnvöld ráð fyrir því að kostnaður vegna almennra atvinnuleysisbóta á árinu 2020 yrði 27,4 milljarðar króna. Uppfærð áætlun stjórnvalda gerir ráð fyrir að 56 milljarðar fari í að greiða út almennar atvinnuleysisbætur á árinu.