Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri á Suðurnesjum mun láta af störfum sem lögreglustjóri á Suðurnesjum og taka við starfi sérfræðings í málefnum landamæra innan dómsmálaráðuneytisins um næstu mánaðamót.
Embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum verður auglýst á næstunni, en Grímur Hergeirsson staðgengill lögreglustjórans á Suðurlandi verður tímabundið settur lögreglustjóri í umdæminu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra flytur Ólaf Helga til í starfi á grundvelli 36. greinar laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en þar segir meðal annars að stjórnvald sem skipað hafi mann í embætti geti flutt embættismann í annað starf án auglýsingar.
Ekki kemur fram í tilkynningu um flutning Ólafs hvort hann hafi óskað eftir flutningi sjálfur, en harðar deilur hafa verið um störf hans innan lögreglunnar á Suðurnesjum að undanförnu og rötuðu þær í fjölmiðla í sumar.
Greint hefður verið frá því í sumar að dómsmálaráðherra hafi bæði beðið Ólaf Helga um að láta af störfum og einnig að honum hafi verið boðið að flytjast til lögreglustjóraembættisins í Vestmannaeyjum.
„Flutningurinn gefur ráðuneytinu og lögreglunni færi á að nýta sérþekkingu hans og reynslu á sviði landamæravörslu næstu árin, sérstaklega þegar kemur að Schengen samstarfinu og þeirri margvíslegu samvinnu Schengen ríkjanna á sviði landamæragæslu sem hefur verið byggð upp innan Frontex landamærastofnunarinnar,“ segir í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.
Sem áður segir stendur til að Grímur Hergeirsson verði tímabundið skipaður í embættið á Suðurnesjum, en einnig mun Margrét Kristín Pálsdóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, gegna stöðu aðstoðarlögreglustjóra á sama tímabili.