Staðan á Suðurnesjum er ógnvænleg segir Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, í samtali við Kjarnann um horfur á svæðinu. Kjarninn hafði samband við Berglindi vegna þess að í vikunni var tilkynnt um styrk frá sveitastjórna- og samgönguráðuneyti til sex sveitarfélaga vegna hruns í ferðaþjónustu í kjölfar COVID-19. Sveitarfélögin eru Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur, Skútustaðahreppur, Bláskógabyggð, Rangárþing eystra og Sveitarfélagið Hornafjörður.
Byggðastofnun gerði samantekt fyrr í ár á áhrifum niðursveiflu í ferðaþjónustu á atvinnuástand á landsbyggðinni. Niðurstöðurnar leiddu í ljós að mörg sveitarfélög yrðu fyrir miklum búsifjum vegna ástandsins og þá sérstaklega níu sveitarfélög, þau sex sem áður voru upp talin og þrjú sveitarfélög á Suðurnesjum; Reykjanesbær, Suðurnesjabær og Sveitarfélagið Vogar.
Fengu 250 milljónir í vor
Spurð að því hvort henni finnist að litið hafi verið fram hjá sveitarfélögum á Suðurnesjum við styrkúthlutunina bendir Berglind á að sveitarfélögin hafi fengið styrk í vor. „Við fengum COVID framlag í vor, 250 milljónir. Það er styrkur sem fór í 17 verkefni sem við erum að vinna að hérna á svæðinu. En það náttúrlega liggur í augum uppi að það mun ekki vega mjög þungt í því ástandi sem við erum að horfa upp á í dag,“ segir Berglind.
Hún segir að vonast hafi verið til þess á Suðurnesjum að ferðaþjónustan myndi rétta úr kútnum og að aukning hafi orðið í flugi eftir miðjan júní. „En nú blasa við ný sjónarhorn á þetta verkefni. Við erum náttúrlega áhyggjufull því það er byrjað að segja aftur upp fólki eða fólk er að fara út af hlutabótaleiðinni þannig að það má gera ráð fyrir því að þá fjölgi á atvinnuleysisskránni,“ segir Berglind.
42 prósent tekna úr greinum tengdum ferðaþjónustu
Von er á því að atvinnuleysi nálgist 19 prósent í september að sögn Berglindar. Þar að auki sé langtímaatvinnuleysi töluvert en fjöldi þeirra sem hafa verið á atvinnuleysisskrá lengur en í tólf mánuði sé um 450. Hún segir stöðuna ógnvænlega og að ástandið hafi eðli málsins samkvæmt bæði áhrif á ríki og sveitarfélög.
Að hennar sögn koma um 42 prósent tekna sveitarfélaga á svæðinu úr greinum sem tengdar eru ferðaþjónustu með einum eða öðrum hætti. En aðrir atvinnuvegir vega misjafnlega upp á móti hruni ferðaþjónustunnar. „Við sjáum eins og í Grindavík þar sem sjávarútvegurinn er meiri en ferðaþjónusta. Þar af leiðandi hefur atvinnuleysi verið minna þar, það er rétt um níu prósent,“ segir Berglind.