Alma Möller landlæknir sagði á blaðamannafundi almannavarna í dag að því miður væru brögð að því að fólk væri á ferðinni – og jafnvel á mannamótum – með einkenni sem síðan reyndust vera COVID-19.
„Eitt af því mikilvægasta við að kveða niður þessa bylgju er að fólk haldi sig heima ef það er með einkenni, fari í sýnatöku og haldi sig til hlés þar til niðurstaða er fengin um að ekki sé um COVID að ræða.“
Hún sagði að einkennin væru hálssærindi, vöðvaverkir, hiti og höfuðverkur, hósti, andþyngsli og slappleiki. Sjaldgæfari einkenni væru breytingar á bragð- og lyktarskyni, ógleði, uppköst og niðurgangur.
Auglýsing
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn sagði á blaðamannafundinum að ekki mætti gleyma því að þeir sem hafa verið að veikjast væri fólk sem hefði talið sig vera í öruggum aðstæðum – og að ekkert hefði verið í umhverfinu sem gæfi til kynna að COVID væri „á næsta leiti“. Hann benti enn fremur á að sjá mætti gríðarleg dómínóáhrif af einu smiti, bæði í því hversu margir væru að smitast og færu í sóttkví.