Miðstjórn ASÍ hefur samþykkt að hafinn verði undirbúningur að Félagsdómsmáli vegna framgöngu Icelandair í kjaraviðræðum félagsins við Flugfreyjufélag Íslands. Á síðasta miðstjórnarfundi ASÍ sem haldinn var þann 19. ágúst síðastliðinn lagði Drífa Snædal, forseti ASÍ fram bókun þar sem meðal annars segir: „Nú þegar verði hafinn undirbúningur undir að látið verði reyna fyrir Félagsdómi á lögmæti framgöngu Icelandair með stuðningi SA í deilunni við FFÍ um grundvallarreglur varðandi samskipti á vinnumarkaði.“
Þetta kemur fram í Fréttamolum frá skrifstofu ASÍ sem eru sendir til miðstjórnar ASÍ, formanna allra aðildarsamtaka ASÍ, stjórnar ASÍ-UNG og tengiliða aðildarfélaga ASÍ.
Þar segir að á miðstjórnarfundinum hafi Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, starfandi Formaður FFÍ, og Berglind Kristófersdóttir, stjórnarmaður í FFÍ, gert grein fyrir kjaraviðræðum félagsins og Icelandair. Þær hafi bent á að samningar FFÍ og Icelandair hefðu verið lausir frá 1. janúar 2019 og ekkert hefði gengið í viðræðum um nýjan kjarasamning fram á þetta ár. Samningstilboð hafi verið lagt fram af Icelandair í apríl sem hafi verið með öllu óásættanlegt „og sýnilega unnið af bandarísku ráðgjafarfyrirtæki.“
„Í framhaldinu hafi gengið á með hótunum af hálfu fyrirtækisins. Síðan var gerður kjarasamningur sem félagsmenn FFÍ felldu með 74% atkvæða. Í framhaldinu hafi Icelandair sagt upp öllum flugfreyjum og flugþjónum sem eftir voru og lýst því yfir að gengið yrði til samninga við annað stéttarfélag þar sem einsýnt væri að ekki næðust samningar við FFÍ,“ segir um reifun þeirra Guðlaugar og Berglindar á kjaraviðræðunum í Fréttamolunum.
Telja að flugfreyjum sem gengið hafa harðast fram sé refsað
FFÍ hafi svo brugðist við með því að boða atkvæðagreiðslu um verkfall en óskað jafnframt eftir samningafundi. Kjarasamningur var síðan undirritaður 24. júlí síðastliðinn og því fylgdi að FFÍ afturkallaði verkfallshótunina og Icelandair drægi uppsagnir frá 17. júlí til baka.
„Fram kom að nú séu í gangi endurráðningar á 190 flugfreyjum og flugþjónum og að í stað þess að fylgja starfsaldurslista hafi verið gengið fram hjá aðilum með lengstan starfsaldur og Icelandair borið ýmislegt fyrir sig í þeim efnum, auk þess sem ástæða sé til að ætla að verið sé að refsa þeim sem gengið hafa harðast fram í kjarabaráttunni,“ segir þar enn fremur.
Álítur Icelandair hafa farið gegn lögum
Á fundinum fjallaði Magnús M. Norðdahl um kjaradeilu FFÍ og Icelandair. Í minnisblaði sínu leggur hann mat á framgöngu Icelandair. Niðurstaða hans er „að framferði og aðgerðir Icelandair með stuðningi SA brjóti í fyrsta lagi gegn 4.gr. laga nr. 80/1938 þar sem tilgangur aðgerðarinnar var augljóslega sá að hafa áhrif á afstöðu og þátttöku félagsmanna FFÍ í vinnudeilu félagsins við Icelandair með því bæði að hóta og hrinda í framkvæmd uppsögnum.“ Þá telur að hann að fjöldauppsögnin hafi falið í sér ólögmætt verkbann.
Á miðstjórnarfundinum kom fram eindreginn stuðningur við að ASÍ hefji undirbúning undir málsókn fyrir Félagsdómi á grundvelli minnisblaðs og niðurstöðu Magnúsar. Í kjölfar umræðna hafi Drífa Snædal lagt fram áðurnefnda bókun þess efnis.