„Það er enginn vafi að Samherja hefur mistekist að verja dótturfélög sín gegn brotum einstaklinga. Okkur þykir það mjög leitt.“ Þetta skrifar Björgólfur Jóhannsson, annar forstjóri Samherja, í bréfi sem birt var í gær á sjávarútvegsfréttavefnum Undercurrent News, sem flutt hefur fréttir af þróun mála í rannsóknum á meintum mútum, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherja i tengslum við viðskipti samstæðunnar í Namibíu sem Kveikur og Stundin opinberuðu í nóvember í fyrra.
Í bréfinu segir Björgólfur, sem tók við sem forstjóri Samherja eftir að málið kom upp þegar Þorsteinn Már Baldvinsson ákvað að stíga tímabundið til hliðar eftir opinberun áðurnefndra fjölmiðla, að Samherji muni í haust hefja birtingu á efni úr rannsókn norsku lögmannsstofunnar Wikborg Rein á alþjóðlegri starfsemi samstæðunnar. Sú var ráðin af stjórn Samherja til að rannsaka ásakanir á hendur fyrirtækinu eftir að þær komu fram, og hefur þegar skilað skýrslu sinni. Upphaflega sögðu forsvarsmenn að allar niðurstöður Wikborg Rein yrðu birtar opinberlega en hingað til hefur lítið sem ekkert verið greint frá því hvað norska lögmannsstofan komst að.
Kvartar yfir því að uppljóstrari hafi ekki viljað hitta Wikborg Rein
Tilefni bréfs Björgólfs er viðtal sem Jóhannes Stefánsson, sem var einn forsvarsmanna Samherja í Namibíu og sá sem uppljóstraði um starfshættina þar, fór í við norska viðskiptablaðið Dagens Næringsliv í byrjun ágústmánaðar. Undercurrent news og fleiri alþjóðlegir miðlar hafa endursagt fréttir úr því viðtali.
Björgólfur segir að í gegnum þetta innra rannsóknarferli hafi Samherji haldið allskyns haghöfum upplýstum um stöðu mála. Þar á meðal séu bankar, viðskiptavinir, endurskoðendur, yfirvöld og aðrir sem hafi reglulega fengið uppfærðar upplýsingar um hvernig rannsóknin gengi.
Fókusinn á Jóhannesi
Björgólfur opinberar að svokallaðar ráðgjafagreiðslur sem eru, samkvæmt málflutningi Jóhannesar og gögnum sem voru birt í tengslum við opinberun Samherjamálsins mútugreiðslur til að komast yfir hrossamakrílkvóta í Namibíu, séu líka aðalumfjöllunarefni rannsóknar Wikborg Rein á starfsemi Samherja.
Hann segir að greiðslurnar hafi verið rýndar af mikilli nákvæmni. Það sem sé óumdeilandlegt sé að Jóhannes hafi stofnað til þeirra sambanda við þá sem fengu umræddar greiðslur og hafi meira og minna séð um samskipti við þá þar til að hann hætti störfum hjá Samherja árið 2016.
Jóhannes sagði hins vegar við Kveik hann hefði ekki hafa gert neitt í Namibíu nema með aðkomu Þorsteins Más, forstjóra og eins aðaleiganda Samherja. Í gögnum málsins var einnig að finna úttekt sem sérfræðingar á vegum KPMG í Hollandi unnu á starfsemi Samherja, fyrir fyrirtækið, og komst að þeirri niðurstöðu að forstjórinn væri nær einráður í fyrirtækinu.
Mútugreiðslurnar hefðu haldið áfram eftir að hann hætti störfum hjá Samherja og hann bæri einungis ábyrgð á því að greiða 20-30 prósent þeirra sem látnar hefðu verið af hendi.
Sjö manns sitja í gæsluvarðhaldi í Namibíu vegna rannsóknar þarlendra yfirvalda á því, þar á meðal tveir fyrrverandi ráðherra. Samherjamálið er einnig til rannsóknar í Noregi.
Hefði viljað að málið yrði innanhúsmál
Björgólfur fullyrðir í bréfinu að Jóhannes sé sá eini sem Wikborg Rein hafi reynt að ná tali af, sem tengdist starfsemi Samherja í Namibíu, sem hafi neitað að tala við stofuna.
Hann telji að það hefði verið í samræmi við bestu venjur, meginreglur og lög í ýmsum löndum, að uppljóstrari eins og Jóhannes myndi fyrst vekja athygli á því innan samstæðu Samherja ef hann teldi að eitthvað óeðlilegt, eins og ólöglegar mútugreiðslur, væru að eiga stað. „Einungis ef slíkar tilraunir bæru ekki árangur væri tilhlýðilegt að fara með málið í fjölmiðla.“
Vert er að ítreka að Jóhannes hefur haldið því fram að æðsti yfirmaður Samherja, Þorsteinn Már, hafi alltaf vitað af því sem væri að eiga sér stað ásamt ýmsum öðrum háttsettum starfsmönnum. Auk þess hafa verið birtir tölvupóstar og önnur gögn sem virðast sýna að umtalsverð vitneskja var um viðskiptahætti Samherja í Namibíu víða innan samstæðunnar.
Markviss herferð gegn Samherja
Björgólfur segir að Jóhannes hafi þess í stað virst hafa ákveðið að taka þátt í markvissri herferð gegn Samherja. Til að undirbyggja þá ásökun vitnar Björgólfur í afrit af yfirheyrslu sem Jóhannes fór í hjá embætti héraðssaksóknara á Íslandi 12. nóvember, sama dag og áðurnefndur þáttur Kveiks var sýndur.
Björgólfur segir að þar hafi Jóhannes útskýrt hvernig hann og Helgi Seljan, einn fréttamannanna sem vann umfjöllunina um athæfi Samherja í Namibíu, hefði hent gaman af fréttatilkynningu Samherja sem send hafði verið út daginn fyrir þáttinn. Björgólfur hefur eftirfarandi eftir Jóhannesi úr yfirheyrslunni: „Ég held að þeir viti ekki hvað þeir eigi að gera, þeir vita ekki hvaða gögn við erum með nákvæmlega og mér finnst, þetta er eins og þegar Helgi Seljan hringdi í mig í gær og sagði bara: þessi fréttatilkynning er eiginlega bara djók, vegna þess að hún er svo veik, vegna þess að við erum með svo sterk gögn.“
Hægt er að lesa innihald umræddrar fréttatilkynningar hér en þar var meðal annars kvartað yfir því að Samherji hefði ekki fengið að „setjast niður“ með Kveik til að fara yfir þær upplýsingar sem þátturinn byggði á. Eftir sýningu þáttarins birti Kveikur samskipti sín við Samherja í aðdraganda sýningu þáttarins sem sýndu að fyrsta viðtalsbeiðni hafði borist tæpum mánuði fyrr og að önnur beiðni, með ítarlegum upplýsingum um efnisatriði umfjöllunarinnar, hafi verið send rúmum tveimur vikum áður en að þátturinn var sýndur.
Í bréfi Björgólf er því haldið fram að slík hegðun sé í andstöðu við hugmyndina um bestu venjur alþjóðlega þegar kemur að uppljóstrunum. Hann endurtekur að heppilegast og uppbyggilegast sé að taka á slíku innanhúss hjá fyrirtækjum svo að hægt sé að breyta hinni brotlegu hegðun. Þess í stað hafi Jóhannes ákveðið að gera grín að því við fréttamann hvernig Samherja hefði verið komið í opna skjöldu vegna málsins.
Hægt er að lesa bréf Björgólfs til Undercurrent news, sem er ritað á ensku, í heild sinni hér.