Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, telur að Stefán Ólafsson, prófessor við HÍ, hafi stigið „illa í spínatið“ í grein sem birtist á Kjarnanum í morgun. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu hans í dag.
Hann segist í grunninn vera sammála því að ríkisvaldið eigi möguleika á því að stíga enn betur inn í aðstæðurnar sem nú eru uppi í samfélaginu vegna COVID-19 faraldursins með vel ígrunduðum aðgerðum. Skautun yfir ferðaþjónustu í því samhengi sé hins vegar undarleg.
Stefán segir í grein sinni að ferðaþjónustan hafi vaxið of hratt á síðustu árum og vart verið sjálfbær, enda hafi hún stólað á skattfríðindi, erlent skammtímavinnuafl í láglaunastörfum og ofnotkun á náttúrugæðunum.
Ljóst að vöxturinn myndi ekki halda svona áfram til eilífðarnóns
Jóhannes Þór bregst við þessu og segir að í fyrsta lagi hafi gríðarlegur vöxtur ferðaþjónustunnar aldrei verið sjálfbær til lengri tíma – um það geti þeir verið sammála. „Það lá hins vegar alveg eins augljóst fyrir að vöxturinn myndi ekki halda svona áfram til eilífðarnóns. Enda var þegar árið 2018 hafinn fasi samþjöppunar og hagræðingar í greininni sem er það sem er eðlilegt að gerist eftir tímabil mikils vaxtar í atvinnugrein. Þannig var ferðaþjónusta þegar fyrir tveimur árum síðan komin á skýra leið til framtíðar í sjálfbærum vexti í samræmi við það sem gerist í heiminum,“ skrifar hann.
Í öðru lagi hafi ferðaþjónustan ekki búið við neins konar „skattfríðindi“ umfram aðrar atvinnugreinar. „Hér vísar Stefán væntanlega til bullsins um „skattaafslátt“ vegna lægra þreps virðisaukaskatts sem hefur verið margoft og ítarlega hrakið síðustu tvö ár. Í nær öllum nágranna- og samkeppnislöndum okkar er ferðaþjónusta í lægra þrepi virðisaukaskatts, og í mörgum þeirra er skattprósentan lægri en hér á landi. Hér er því um lykilatriði fyrir samkeppnishæfni atvinnugreinarinnar að ræða sem skilar ríkinu í staðinn meiri ávinningi í öðrum tekjum.“
Í þriðja lagi sé erlent starfsfólk um það bil einn þriðji hluti þeirra sem starfa í ferðaþjónustu en Íslendingar tveir þriðju hlutar. Jóhannes Þór segir að stór hluti erlends starfsfólksins sé orðið svo rótgróinn og mikilvægur hluti samfélagsins, rétt eins og Íslendingarnir, að það sé minnihluti starfsfólks í ferðaþjónustu „erlent skammtímavinnuafl“. Mikill meirihluti sé fólk sem búi árið um kring í íslensku samfélagi með fjölskyldur sínar.
Allur launaskalinn í ferðaþjónustu
Í fjórða lagi gagnrýnir Jóhannes Þór orð Stefáns um að í ferðaþjónustu séu einungis láglaunastörf. „Staðreyndin er að í ferðaþjónustunni er allur launaskalinn alveg eins og í öðrum atvinnugreinum og þar er t.d. fjöldi vel menntaðs og reynds starfsfólks sem fær greitt fyrir vinnu sína í samræmi við það. Ferðaþjónustan er hins vegar mannaflsfrek atvinnugrein og mikið af störfum þar fyrir ómenntað starfsfólk sem fær greitt samkvæmt því – það dregur meðaltalið auðvitað niður. Lágmarkslaun á Íslandi eru samt sem áður þau hæstu innan OECD. Það er í samhenginu athyglisvert að á sama tíma og Stefán gagnrýnir ferðaþjónustu fyrir láglaunastörf leggur hann til í staðinn „mikla fjölgun starfa við umönnun“.“
Í fimmta lagi sé ekkert sem sýni fram á að ferðaþjónusta hafi „ofnotað náttúrugæði“ undanfarin ár. Þvert á móti sé leitun að atvinnugrein þar sem ríki meiri virðing fyrir náttúrunni og skilningur á því að náttúra Íslands sé auðlind sem verði að varðveita. „Það eru auðvitað fjölmörg verkefni í uppbyggingu innviða sem við höfum þurft að bregðast við og það gekk hægar en þörf var á fyrstu ár vaxtarins. Síðustu ár hefur hins vegar orðið mikil bragarbót á því með átaki ríkis, sveitarfélaga og atvinnugreinarinnar, þó enn megi bæta við.
Sem málsvari ferðaþjónustunnar hlýt ég að gera kröfu til þess að fræðimenn og aðrir sem nú tjá sig um ferðaþjónustuna og málefni tengd henni ýti ekki undir rakalausa sleggjudóma,“ skrifar hann að lokum.
Stefán Ólafsson stígur illa í spínatið í grein á Kjarnanum í dag. Ég er í grunninn sammála því að ríkisvaldið á...
Posted by Jóhannes Þór on Tuesday, August 25, 2020