Leggja þarf heildstætt mat á þjóðhagslegan kostnað og ávinning af misjafnlega ströngum sóttvörnum, annars vegar á landamærunum og hins vegar innanlands. „Í því sambandi þurfi m.a. að huga að samspilinu þarna á milli, þ.e.a.s. hve mikið hertar sóttvarnaaðgerðir á landamærunum dragi úr líkum á að grípa þurfi til harðra aðgerða innanlands. Um sum (en ekki öll) þessara atriða mætti t.d. hafa hliðsjón af greiningu sem unnin var á Nýja-Sjálandi.“
Þetta kemur fram í minnisblaði sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunar, lagði fram á ríkisstjórnarfundi á þriðjudag í síðustu viku. Kjarninn hefur fengið hluta minnisblaðsins afhentan en búið er að fjarlægja upplýsingar um þriðja aðila sem ekki þótti tilhlýðilegt að birta opinberlega.
Þar segir enn fremur að ljóst sé að fyrirtæki í ferðaþjónustu og starfsfólk þeirra verði fyrir einna mestum skaða af þeim nýju ráðstöfunum sem gripið hefur verið til á landamærunum, og fela í sér kröfu um að ferðamenn fari í tvöfalda skimum og fimm til sex daga sóttkví þar á milli, í þágu þess markmiðs að lágmarka líkur á smitum innanlands. Svara þurfi því hvort huga ætti að sértækum mótvægisaðgerðum.
Hagsmunir gætu hlaupið á hundruðum milljarða
Sama dag og greint var frá því frá hertum takmörkunum á landamærum Íslands, þann 14. ágúst, greindi Kjarninn frá öðru minnisblaði, sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafði kynnt í ríkisstjórn þennan sama dag. Þar sagði að frá því um miðjan júní, þegar landamærin voru „opnuð“, hefðu um 70 þúsund ferðamenn komið til landsins auk um 45 þúsund íslenskra ríkisborgara.
Framlag hvers ferðamanns á hagkerfið er metið á 100 til 120 þúsund krónur og því var áætlað að þeir ferðamenn sem höfðu heimsótt Ísland síðustu tvo mánuði á undan hefðu lagt um átta milljarða króna til efnahagslífsins á þeim tíma. Til samanburðar gæti útbreiðsla faraldursins dregið úr neyslu innanlands um tíu milljarða króna, líkt og gerðist þegar sett var á hart samkomubann hérlendis í vor.
Í minnisblaði Bjarna sagði að „efnahagslegir hagsmunir af því að komast hjá hörðum sóttvarnaaðgerðum geta hlaupið á hundruðum milljarða króna“. Ljóst er þó að minnisblað ráðherrans uppfyllir ekki það skilyrði að geta kallast heildstætt mat á þjóðhagslegan kostnað og ávinning af misjafnlega ströngum sóttvörnum.
„Opnunin“ gagnaðist fyrirtækjum mismunandi
Í minnisblaðinu segir að leiða megi líkur að því að losun takmarkana á landamærum um miðjan júní, sem oftast nær er talað um sem „opnun“ þeirra, hafi gagnast ferðaþjónustufyrirtækjum misjafnlega vel.
Þar segir að seinni hópur ferðaþjónustufyrirtækjanna, þau sem fengu minnst út úr opnuninni í sumar, hafi eygt von um viðskipti í haust og vetur. Sú von hafi mögulega brugðist nú eftir að ákvörðun stjórnvalda að „loka“ í landamærunum að mestu. Það sé samdóma álit stjórnsýslu ferðamála og forsvarsmanna greinarinnar að ólíklegt sé að margir ferðamenn komi til landsins á forsendum hinnar nýju ákvörðunar.
Möguleikar til viðspyrnu versna
Staðan grafi undan möguleikum ferðaþjónustunnar til viðspyrnu þegar aðstæður til sóknar skapast á ný. „Bókunarfyrirvari hefur almennt styst vegna Covid og erlendir ferðamenn hika frekar við að bóka ferðir til Íslands í framtíðinni á meðan óvíst er hvaða takmörkunum þeir muni sæta við komuna til landsins. Til að verja þau verðmæti sem felast í framtíðartekjumöguleikum greinarinnar er því talið þýðingarmikið að stjórnvöld gefi sem allra fyrst út 1) hvenær standi til að endurskoða sóttvarnaraðgerðir á landamærunum og/eða 2) hvaða viðmið muni þurfa að nást til að óhætt verði talið að slaka á þeim.“
Þá er greint frá því í minnisblaðinu að Ferðamálastofna hafi ráðfært sig við sérfræðinga um endurgreiðsluskyldu sem hin nýja ákvörðun kunni að valda fyrirtækjum í ferðaþjónustu. „Áfram er unnið að mati á þessu á vettvangi stjórnsýslunnar. Í framhaldi af því þarf að meta hvort ákvörðunin kallar á mögulegar aðgerðir af hálfu stjórnvalda eða ekki.“