Sex starfsmenn hafa verið ráðnir til starfa á nýju brunavarnasviði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) á Sauðárkróki. Nýtt brunavarnasvið HMS mun taka til starfa á starfsstöð stofnunarinnar á Sauðárkróki þann 1. október næstkomandi. Tilkynnt var um flutning starfseminnar til Sauðárkróks í byrjun sumars en flutningurinn er liður í áformum ríkisstjórnarinnar um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá HMS.
Fyrr í þessum mánuði fjallaði Kjarninn um ráðningu Þorgeirs Óskars Margeirssonar í stöðu framkvæmdastjóra en nú er búið að ráð forvarnafulltrúa og fjóra sérfræðinga á sviði brunavarna og slökkvistarfs. Alls bárust á þriðja tug umsókna um störfin. Fimm af starfsmönnunum sex munu flytjast á Sauðárkrók á næstu mánuðum ásamt fjölskyldum sínum en einn starfsmaður býr þar nú þegar.
Forvarnafulltrúi og sérfræðingar í brunavörnum og slökkvistarfi ráðnir
Í stöðu forvarnafulltrúa brunavarnasviðsins hefur verið ráðin Eyrún Viktorsdóttir. Hún starfaði áður sem lögfræðingur og verkefnastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish og sem lögfræðingur hjá Dattaca Labs sem sérfræðingur í persónuvernd. Hún er lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og í tilkynningu segir að í störfum Eyrúnar hafi hún komið að almannatengslum, kynningar- og fræðslumálum og greinaskrifum.
Þeir Ásgrímur Sveinsson og Grétar Þór Þorsteinsson hafa verið ráðnir sem sérfræðingar í brunavörnum. Ásgrímur er að ljúka meistaraprófi í verkfræði frá DTU og Grétar Þór er umhverfis- og orkutæknifræðingur og vélvirkjameistari.
Þá hafa þeir Stefán Árnason og Þorlákur Snær Helgason verið ráðnir sem sérfræðingar í slökkvistarfi. Stefán er menntaður slökkviliðs- og sjúkraflutningsmaður, er með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun og B.Sc. gráður í líffræði. Þorlákur Snær er einnig menntaður slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður.
Nýtt svið tvöfalt stærra en það gamla
Í tilkynningunni segir að nýtt brunavarnasvið verði tvöfalt stærra en það gamla. „Hlutverk hins nýstofnaða brunavarnasviðs verður að stýra og stórefla brunavarnir á vegum ríkisvaldsins. Fjórir starfsmenn sinna nú þessum málaflokki sérstaklega hjá HMS í deild brunavarna í Reykjavík. Tveir starfsmenn deildarinnar hafa þegið störf á nýju sviði öryggis mannvirkja hjá HMS og munu þeir starfa áfram hjá HMS í Reykjavík. Sex starfsmenn munu hefja störf á brunavarnasviði á Sauðárkróki í haust og gert er ráð fyrir að átta starfsmenn muni sinna þessum verkefnum á Sauðárkróki þegar sviðið verður full mannað á næstu mánuðum,“ segir í tilkynningunni.
Í tilkynningunni segir að ljóst sé að breytingin muni hafa „umtalsverð og jákvæð áhrif á íbúafjölda og mannlífið í Skagafirði.“ Það sé ánægjulegt að með breytingunni hafi skapast atvinnutækifæri sem geri ungum fjölskyldum mögulegt að snúa til starfa í sinni gömlu heimabyggð þar sem þau ólust upp segir þar enn fremur.
Líkt og áður segir munu tveir starfsmenn sem nú starfa í deild brunavarna í Reykjavík ekki flytja til Sauðárkróks og hafa þeir þegið störf í öðrum deildum HMS. Tveir starfsmenn sem starfað hafa í deild brunavarna hafa sagt upp störfum.