Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að meginvextir bankans verði áfram eitt prósent. Vextir hafa verið lækkaðir þrisvar sinnum frá því að yfirstandandi efnahagsástand vegna COVID-19 faraldursins hófst, síðast í maí, og alls hafa stýrivextir lækkað um 3,75 prósentustig frá því í maí í fyrra.
Þeir hafa aldrei verið lægri í Íslandssögunni.
Í yfirlýsingu nefndarinnar segir að samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í ágústhefti ritsins Peningamála séu horfur á að landsframleiðslan dragist saman um sjö prósent í ár og útlit er fyrir að atvinnuleysi verði komið í um tíu prósent undir lok ársins. „Þótt horfur fyrir seinni hluta ársins séu heldur lakari en spáð var í maí er talið að samdrátturinn á árinu öllu verði nokkru minni en þá var gert ráð fyrir. Þar vegur þyngst að einkaneysla var kröftugri í vor og sumar. Óvissan er hins vegar óvenju mikil og þróun efnahagsmála mun ráðast af framvindu farsóttarinnar.“
Traustari kjölfesta verðbólguvæntinga hafi gert peningastefnunefnd kleift að bregðast við versnandi efnahagshorfum með afgerandi hætti. „Lægri vextir og aðrar aðgerðir bankans sem gripið var til á vormánuðum hafa stutt við innlenda eftirspurn. Áhrif þeirra eiga þó eftir að koma fram að fullu og munu þær áfram styðja við þjóðarbúskapinn og stuðla að því að efnahagsbatinn verði hraðari en ella. Peningastefnunefnd mun áfram fylgjast grannt með framvindu efnahagsmála og nota þau tæki sem nefndin hefur yfir að ráða til að styðja við þjóðarbúskapinn og tryggja að lausara taumhald peningastefnunnar miðlist með eðlilegum hætti til heimila og fyrirtækja.“