Kostnaður ríkissjóðs vegna framlengingar hlutabótaleiðar, tímabundinnar lengingar tekjutengdra atvinnuleysisbóta og greiðslu launa til fólks í sóttkví er metinn vera um 5,4 milljarðar króna. Þetta kemur fram í greinargerð frumvarps Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um breytingu á lögum um til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru. Frumvarpið var samþykkt af ríkisstjórn í vikunni.
Með samþykkt frumvarpsins var hlutabótaleiðin framlengd í tvo mánuði og gildir nú út október auk þess sem réttur til tekjutengdra atvinnuleysisbóta verður tímabundið lengdur úr þremur mánuðum í sex. Þá mun greiðsla launa til einstaklinga í sóttkví halda áfram og vera heimilaðar á tímabilinu 1. október 2020 til og með 31. desember 2021.
Tveir milljarðar í hlutabætur
Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að áætlaður kostnaður við lengingu hlutabóta úrræðisins sé um tveir milljarðar króna. Sú áætlun miðast við að fjöldi umsókna um atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli á gildistíma úrræðisins verði á bilinu 2.500 til 3.500. Erfitt sé að spá fyrir um hver þróun fjölda atvinnuleitenda sem nýtir sér úrræðið verður.
Þegar mest var nýttu rúmlega 36.000 einstaklingar sér úrræðið en um miðjan ágúst var fjöldi þeirra kominn niður fyrir 3.000. Um miðjan þennan mánuð var búið að greiða út 18 milljarða króna en áætlanir höfðu gert ráð fyrir að kostnaður úrræðisins í ár næmi 22 milljörðum króna
Aukin tekjutenging kosti rúma þrjá milljarða
Samkvæmt greinargerðinni gerir Vinnumálastofnun ráð fyrir að kostnaður við tímabundna aukningu á tekjutengingu atvinnuleysisbóta muni nema um 3,2 milljörðum króna. Áætlað er sá kostnaður skiptist þannig að 1,7 milljarðar falli á árið 2020 en 1,5 milljarðar árið 2021. Mikil óviss er þó í mati kostnaðarins.
„Mat á mögulegum útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna þeirra breytinga sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir hvað varðar tímabundinn aukinn rétt atvinnuleitenda til tekjutengdra atvinnuleysisbóta byggist meðal annars á mögulegri þróun fjölda umsækjenda um atvinnuleysisbætur en erfitt er að spá fyrir um hver sú þróun verður,“ segir um matið í greinargerðinni.
Markmiðið með framlengingu á rétti til tekjutengdra atvinnuleysisbóta úr þremur mánuðum í sex mánuði er að koma til móts við einstaklinga sem orðið hafa fyrir atvinnumissi vegna faraldursins og munu búa við skerta möguleika á atvinnu næstu misseri.
Sóttkvíarlaun ekki kostað jafn mikið og gert var ráð fyrir
Kostnaður vegna framlengingar á greiðslu launa í sóttkví er metinn verða á bilinu 200 til 300 milljónir króna. Sú tala er fengin með því að áætla að greitt verði til 1.500 til 2.000 einstaklinga sem þurfa að sæta sóttkví og að meðalgreiðsla verði svipuð og verið hefur, um 130.000 krónur til hvers einstaklings.
Hægt var að sækja um greiðslur launa í sóttkví frá Vinnumálastofnunar til 1. júlí síðastliðinn. Alls nemur kostnaður við úrræðið þar til nú um 190 milljónum króna. Í greinargerðinni segir að samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun hafi stofnunin afgreitt rúmlega 1.000 umsóknir vegna tæplega 1.500 einstaklinga. Upphaflegt kostnaðarmat hafi verið 600 til 700 milljónir vegna úrræðisins, en gert var ráð fyrir að lögin myndu ná til 2.500 til 3.000 einstaklinga og meðalgreiðsla vegna einstaklings yrði um 240.000. Meðalgreiðslur urðu á endanum líkt og áður segir um 130.000 krónur.