Sá hluti rekstrar Reykjavíkurborgar sem fjármagnaður er með skatttekjum, svokallaður A-hluti, skilaði 3.111 milljóna króna tapi á fyrstu sex mánuðum ársins 2020. Áætlun hafði gert ráð fyrir því að afkoma af rekstri hans yrði jákvæð um 736 milljónir króna. Því var afkoma A-hlutans 3.847 milljónum króna undir áætlun.
Lakari rekstrarniðurstaða skýrist einkum af lægri skatttekjum og lægri tekjum af sölu byggingarréttar.
Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 2.648 milljónir króna en áætlanir hafi reiknað með að hún yrði jákvæð um 2.083 milljónir króna. Niðurstaðan var því 4.731 milljónum krónum undir áætlun.
Hinn hlutinn í rekstri borgarinnar, B-hlutinn, nær yfir afkomu þeirra fyrirtækja sem borgin á að öllu leyti eða að hluta. Fyrirtækin sem teljast til B-hlutans eru Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Þjóðarleikvangs ehf.
Heildareignir samstæðunnar samkvæmt samanteknum efnahagsreikningi námu í lok júní 724,5 milljörðum króna og heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 378,1 milljarðar króna. Eigið fé hennar var því 346,5 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 47,8 prósent.
Þetta kemur fram í árshlutareikningi borgarinnar sem afgreiddur var í borgarráði í dag.
Í tilkynningu til Kauphallar Íslands vegna þessa kemur fram að ástæða þess að rekstur borgarinnar er langt undir því sem áætlanir gerðu ráð fyrir sé heimsfaraldur kóronuveiru. Efnahagsáfallið sem gangi yfir heimsbyggðina sökum heimsfaraldurs kórónuveiru sé farið að birtast í rekstri samstæðu Reykjavíkurborgar. „Þannig hefur veiking krónunnar umtalsverð áhrif á erlend lán Orkuveitu og álverð hefur lækkað með neikvæðum áhrifum á álafleiðu Orkuveitu. Mikill tekjusamdráttur hefur orðið hjá Faxaflóahöfnum og Strætó auk Sorpu bs. sökum samdráttar í ferðaþjónustu og minni umsvifa innanlands. Gera má ráð fyrir áframhaldandi samdrætti næstu misseri.“
Í fréttatilkynningu frá borginni er haft eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra að borgin sýni nú skýr merki um heimsfaraldurinn í fjárhagsuppgjöri sínu fyrir fyrstu sex mánuði ársins. „Þyngst vegur tekjusamdráttur vegna atvinnuleysis og minni umsvifa í efnahagslífinu. Áberandi tekjufall er einnig hjá Strætó og Faxaflóahöfnum. Hins vegar hafa aukin útgjöld fylgt viðbrögðum við COVID-19. Rekstur málaflokka hefur að öðru leyti gengið vel. Niðurstöðurnar eru í ágætu samræmi við sviðsmyndir og spár fjármálasviðs borgarinnar frá því í vor og undirstrika að standa þarf með sveitarfélögum við núverandi aðstæður enda bera þau uppi lykil grunnþjónustu í samfélaginu.“