Isavia sagði í dag upp 133 starfsmönnum og settu tólf til viðbótar í lægra starfshlutfall. Aðgerðirnar koma til viðbótar því að 101 starfsmanni var sagt upp í lok mars. Isavia, sem rekur meðal annars Keflavíkurflugvöll, hefur því sagt upp 234 manns frá því að COVID-19 faraldurinn skall á Íslandi. Frá því faraldurinn hófst hefur stöðugildum hjá móðurfélagi Isavia nú fækkað um 40 prósent.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu, sem er að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, segir að frá því að faraldurinn skall á hafi það gripið til umfangsmikilla aðgerða sem snerti öll svið þess vegna samdráttarins sem orðið hefur í flugi til og frá landinu í yfirstandandi heimsfaraldri.
Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, segir að eftir ágætis gang í sumar, þar sem fjölgun ferðamanna um Keflavíkurflugvöll var nokkuð stöðug, hafi orðið alger viðsnúningur í kjölfar ákvörðunar um tvöfalda skimun með sóttkví á milli.
Nú sé veruleg óvissa um framvindu næstu mánaða og Isavia ætlar ætlar að endurskoða stöðuna reglulega. „Flugfélög hafa dregið verulega úr framboði og eins og staðan er í dag þá er útlit fyrir að það breytist ekki í náinni framtíð. Forsendur okkar frá í sumar eru því brostnar og í dag gerum við ráð fyrir að umsvifin í vetur verði mjög lítil á Keflavíkurflugvelli. Það er því útlit fyrir að verkefni verði af skornum skammti fyrir hóp starfsmanna okkar næstu mánuðina.“