„Ég held því fram að grunnskilyrði þess að lífeyrissjóðirnir komi að hlutafjárútboði Icelandair sé að það verði gerð krafa að stjórnendum félagsins verði skipt út.“ Þetta segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR í samtali við Kjarnann en vænta má að hlutafjárútboð Icelandair fari fram í næsta mánuði.
Hann segir að ekki hafi staðið steinn yfir steini í ákvörðunartöku Icelandair síðastliðið ár – hvort sem litið sé til Boeing-málsins, Lindarvatns-hneykslisins, breytinga á leiðarkerfum eða hvernig þeim hafi „algjörlega mistekist í samkeppni“. Þeir séu með úreldan flota og hafi gengið mjög harkalega gagnvart launafólki á meðan kröfuhafar séu óáreittir. Flugfélagið sé að fara inn í nýtt samkeppnisumhverfi á flugmarkaði yfirskuldsett á „úreldum og verðlausum flota“.
Hann veltir því fyrir sér – ef lífeyrissjóðirnir séu að íhuga að taka þátt í útboðinu – hvort þeir hljóti ekki að gera þá kröfu að stjórnendum félagsins verði skipt út.
Í hrópandi ósamræmi við almenna skynsemi
„Flugrekstur er gríðarlega áhættumikill rekstur og það er ekki að sjá að hann ætli að rétta úr kútnum allra næstu árin og ef þessir stjórnendur gátu ekki rekið félagið réttu megin við núllið á mesta uppgangstíma flugsögunnar þá hefði maður ætlað að þeirra tími væri liðinn,“ segir hann.
Þá vill Ragnar Þór enn fremur minna á framgöngu stjórnenda félagsins gagnvart vinnandi fólki. „Þeir fullyrða það meðal annars að kröfuhafar vilji ekki breyta skuldum í hlutafé vegna þess að veðin séu svo góð, vitandi það að almenningi sé það nokkuð ljóst að bankarnir íslensku séu meðal stærstu kröfuhafa og með veð í verðlausum flota. Þetta er í hrópandi ósamræmi við almenna skynsemi,“ segir hann.
„Framkoma stjórnenda gerir áætlanir þeirra mjög ótrúverðugar. Það er svo mikil óvissa þarna og lífeyrissjóðirnir eru langtímafagfjárfestar. Það sýndi sig til dæmis í þessu COVID-ástandi að þegar koma svona niðursveiflur þá eru lífeyrissjóðirnir allt of stórir hluthafar í Icelandair til þess að geta hreyft sig. Þannig að lífeyrissjóðirnir þurfa að fara í áhættuminni fjárfestingar en flugrekstur,“ segir hann.
Verða að hugsa hlutina upp á nýtt
Sjóðirnir verði að hugsa sína fjárfestingarstefnu alveg upp á nýtt – sem reyndar Ragnar Þór telur að þeir séu byrjaðir að gera. „Ég tel að tilraun stjórnenda Icelandair að brjóta á samningsrétti launafólks stríði gegn siðferðisviðmiðum – og sömuleiðis stríði gegn umhverfisviðmiðum sem lífeyrissjóðirnir hafa sett sér að fjárfesta í félagi sem hefur flugflota.“
Út af eðli sjóðanna ættu þeir því að halda sig í annars konar fjárfestingu, til dæmis í uppbyggingu á leigufélögum. Flugrekstur sé hentugur valkostur fyrir áhættusækna skammtímafjárfesta.
Myndi ekki „snerta á þessu með priki“
Varðandi ríkisábyrgð þá telur Ragnar Þór það vera farsælla ef ríkið tæki frekar félagið yfir á einhverjum tímapunkti frekar en að fara þá leið. „Það er mín skoðun. Alveg eins og gert var með bankana eftir hrun, þar var tekin ákvörðun á einum sólarhring.“
Hann vill minna á að rekstur flugfélaga sé mikilvægur fyrir samfélagið en að ekki sé hægt að fórna öllu fyrir slíkt. „Þegar blasir við að þarna eru algjörlega óhæfir stjórnendur við stýrið. Það er óskiljanlegt að félagið sé ekki löngu búið að gera breytingar á stjórn og æðstu stjórnendum þar inni.“
Með ríkisábyrgð sé verið að reyna að selja almenningi það að ábyrgð í slíku félagi sé með veði í lendingarheimildum og vörumerki. „Þetta er í svo hrópandi ósamræmi við almenna skynsemi. Þú kaupir ekki vörumerki eða lendingarheimildir fyrir 16 milljarða. Ég held að fólk sé orðið miklu upplýstara í dag heldur en það var hér áður fyrr að trúa svona vitleysu. Það er verið að reyna að matreiða einhverja vitleysu ofan í almenning. Þetta er hluti af því sem gerir allt þetta mál ótrúverðugt og það er þess eðlis að ég myndi ekki snerta á þessu með priki.“