Mynd: Bára Huld Beck Bjarni Benediktsson

Markmið ríkisábyrgðar Icelandair ekki að verja hag hluthafa eða lánardrottna

Ef Icelandair fer í gjaldþrot eftir að hafa nýtt sér lánalínur með ríkisábyrgð mun íslenska ríkið eignast vörumerkið, bókunarkerfi félagsins og lendingarheimildir. Ef það tekst að selja alla hlutafjáraukningu Icelandair og nýir eigendur nýta áskriftarréttindi sín að fullu munu safnast 28,75 milljarðar króna í nýtt hlutafé. Þá þynnast núverandi hluthafar niður í um 16 prósent eignarhlut.

Ef Icelandair Group nýtir lánalínur ríkisbankanna Íslandsbanka og Landsbankans, upp á 16,5 milljarða króna, sem ríkir ábyrgist 90 prósent af, en fer samt í gjaldþrot mun íslenska ríkið eignast tilteknar eignir félagsins. Á meðal þess sem mun fara til ríkisins við slíkar aðstæður er vörumerkið, bókunarkerfið og „eftir atvikum“ lendingarheimildir, samkvæmt því sem fram kemur í frumvarpi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um ríkisábyrgðina. 

Með þessu fyrirkomulagi telja stjórnvöld að tryggt sé að „hægt sé að ráðstafa lykileignum félagsins til að stuðla að hraðari uppbyggingu flugsamgangna að nýju ef til rekstrarstöðvunar félagsins kæmi.“

Frumvarpið hefur verið afgreitt úr þingflokkum stjórnarflokkanna og fjármála- og efnahagsmálaráðherra mun mæla fyrir því á Alþingi á morgun. Samþykkt þess er lykilatriði í björgunarleiðangri Icelandair Group, og forsenda þess að félagið geti haldið hlutafjárútboð í september sem verður að lágmarki upp á 20 milljarða króna, en að hámarki upp á 28,75 milljarða króna. 

Sjaldgæft að einkafyrirtæki fái ríkisábyrgð 

Samhliða framlagningu frumvarps um ríkisábyrgðir er lagt fram nýtt frumvarp til fjáraukalaga sem hefur þann eina tilgang að búa til heimild fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar. Hún mun geta numið 90 prósent af 120 milljónum dala, sem á núvirði eru um 15 milljarðar króna. 

Auglýsing

Afar sjaldgæft er að fyrirtæki í einkaeigu fái ríkisábyrgð á skuldum sínum. Frægasta dæmið er þegar ríkisábyrgð upp á 200 milljónir dala vegna fjármögnunar Íslenskrar erfðagreiningar var samþykkt í maí 2002 með minnihluta atkvæða þingmanna. Sú ákvörðun var gífurlega umdeild. Íslensk erfðagreining nýtti hins vegar aldrei þá ríkisábyrgð og fjármagnaði á endanum áform sín með öðrum hætti. 

Í fjáraukalagafrumvarpinu segir að rík ástæða þurfi að liggja á bakvið aðgerð eins og þeirri að veita fyrirtæki ríkisábyrgð, sem sé í senn veruleg að fjárhagslegu umfangi og afar sértæk. „Það leiðir af landfræðilegri stöðu Íslands að nauðsyn ber til að tryggja traustar og samfelldar samgöngur fyrir vöru- og fólksflutninga. Þá hefur vægi ferðaþjónustu í þjóðarbúskapnum, þar sem starfsemi Icelandair hefur algjöra grundvallarþýðingu, vaxið óðfluga á síðustu árum. Umfang farþegaflutninga á vegum félagsins hefur skapað mikilvægan grundvöll fyrir vöxt og viðgang allra annarra greina ferðaþjónustunnar. Því má segja að um sé að tefla verulega almenna samfélagslega hagsmuni, ásamt mjög umtalsverðum beinum fjárhagslegum hagsmunum á fjölda launamanna og fyrirtækja.“

Ekki ætlunin að verja hag hluthafa

Gert er ráð fyrir að ádráttartímabil lánsins sem ríkisbyrgð verður á verði í tvö ár eða til september 2022. Frá þeim tíma lokast það og lánið skal endurgreiða með jöfnum mánaðarlegum greiðslum á næstu þremur árum. 

Einnig er gert ráð fyrir að leyfi rekstur félagsins að greiða lánið hraðar niður skuli það gert. Til að tryggja það verður ákvæði í samningnum sem skyldar félagið til að nota umframlausafé til að greiða niður lánið.

Fjórar lykilforsendur séu fyrr aðkomu ríkisins að því að veita Icelandair ábyrgð eða tryggja félaginu aðgengi að lánsfé með öðrum hætti. Þær eru: 

  • Að aðkoma ríkisins sé nauðsynleg í þeim tilgangi að tryggja traustar og órofnar flugsamgöngur til og frá landinu. 
  • Að tryggja að til staðar sé flugrekstraraðili sem taki öflugan þátt í efnahagslegri viðspyrnu þegar þar að kemur. 
  • Að rekstrar- og samkeppnishæfni til lengri tíma sé tryggð. 
  • Að almannafé og áhætta ríkisins verði takmörkuð við það sem þjóni opinberum hagsmunum, en hafi ekki að markmiði að verja hag hluthafa eða lánardrottna.

Síðasta forsendan varð meðal annars til þess að útboðsgengi í komandi hlutafjárútboði Icelandair varð ein króna á hlut, 40 prósent lægra en markaðsgengi félagsins þann dag. 

Auglýsing

Viðmælendur Kjarnans segja að stjórnvöld vonist til þess að með þessu skapist umframeftirspurn eftir þátttöku í hlutafjárútboðinu og að það takist að selja nýtt hlutafé fyrir 23 milljarða króna. Til viðbótar mun fjárfestum í útboðinu bjóðast áskriftarréttindi upp á allt að 25 prósent af nýju hlutunum. Verði þau nýtt að fullu getur hlutafjáraukningin orðið 28,75 milljarðar króna, og núverandi hluthafar Icelandair samhliða þynnast niður í allt að 16 prósent. 

Fær aðgang að öðrum lánalínum að  nýju

Björgunaráætlun Icelandair, sem opinberuð var fyrr í mánuðinum, gerir ráð fyrir því að félagið fái líka aðgang að rekstrarlánalínum sem það var með hjá viðskiptabönkum sínum, Landsbanka og Íslandsbanka. Aðgengi að þeim línum, sem eru upp á 52 milljónir dala (tæpa 7,2 milljarða króna), hafði lokast vegna þess að Icelandair hafði brotið skilmála með því að fjárhagsstaða félagsins fór niður fyrir skilgreind mörk í lánasamningum. 

Bogi Nils Bogason er forstjóri Icelandair Group.
Mynd: Skjáskot/RÚV

Í fjáraukalagafrumvarpinu segir að skilmálar fyrir ádrætti á þær línur verði samræmdir á næstu 24 mánuðum, þannig að þær standi félaginu opnar svo lengi sem eiginfjárhlutfall félagsins verði hærra en átta prósent. Ofan á þessar línur kom svo nýjar lánalínur frá ríkisbönkunum tveimur upp á 60 milljónir dala hvor, og það eru þær lánalínur sem munu verða með 90 prósent ábyrgð af hálfu ríkisins. 

Í athugasemdum frumvarpsins segir: „Með fyrrgreindri áætlun um fjármögnun mun félagið fjármagna að fullu vænta fjárþörf (258 milljónir Bandaríkjadala) næstu 24 mánuði með lausu fé (150 milljónir Bandaríkjadala) og væntu hlutafé nýrra hluthafa (147 milljónir Bandaríkjadala), samtals tæplega um 297 milljónir Bandaríkjadala. 

Félagið mun að auki hafa aðgang að rekstrarlánalínum hjá viðskiptabönkum sínum að samtals fjárhæð 52 milljónir Bandaríkjadala til að tryggja að það hafi ávallt aðgang að nægu lausu fé til þriggja mánaða rekstrar án tekna og þar fyrir utan rekstrarlánalínur til þrautavara (120 milljónir Bandaríkjadala) með 90 prósent ábyrgð ríkisins ef rekstur félagsins mun ganga mun verr en áætlanir þess gera ráð fyrir. Gangi áætlun félagsins um fjármögnun og rekstur eftir mun aldrei reyna á lánalínur með ábyrgð ríkisins. Samkvæmt áætlun félagsins verður eiginfjárhlutfall þess að lágmarki rúmlega 23 prósent eftir árangursríkt útboð á hlutafé (20 ma.kr.) og fer lægst í rúm 13 prósent í lok fyrsta árshluta 2022.“

Ýmsir áhættuþættir

Í ljósi þess að möguleg nýting á ríkisábyrgðinni helst að öllu leyti í hendur við það hvort áætlanir Icelandair gangi eftir eða ekki er farið sérstaklega yfir það í athugasemdum við fjáraukalagafrumvarpið hvaða þættir gætu haft neikvæð áhrif á árangur félagsins og þar með aukið líkurnar á ádrætti á lánalínur. 

Auglýsing

Þeir þættir eru helst taldir vera fjórir. Í fyrsta lagi að aukning eftirspurnar og þar með framboðs á flugi Icelandair verði hægari en gert er ráð fyrir, sérstaklega frá næsta vori og til loka september 2022. Í öðru lagi að að aukin samkeppni muni leiða til lægri verða á flugsætum en gert er ráð fyrir. Í þriðja lagi að ef dregið verður á lánalínurnar þá eigi ofangreindir áhættuþættir jafnframt við um rekstur félagsins á afborgunartíma lánalínanna, frá fjórða ársfjórðungi 2022 til loka þriðja ársfjórðungs 2025, og getu félagsins til að endurgreiða þær. 

Í fjórða lagi er tiltekið að ef Icelandair verði gjaldþrota þá sé fjárhagsleg áhætta ríkisins um 15 milljarðar króna. „Við gjaldþrot munu hins vegar lykileignir félagsins (vörumerki, bókunarkerfi og e.a. lendingarheimildir) renna til ríkisins sem hægt væri að nýta til að bregðast við þeirri óvissu sem slíkt gjaldþrot myndi fela í sér gagnvart flugsamgöngum til og frá landinu.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar